„Málið er ekki dautt heldur sofandi“

Frumvarpi um takmarkað aðgengi trans einstaklinga að almennings salernum í …
Frumvarpi um takmarkað aðgengi trans einstaklinga að almennings salernum í Texas hefur verið fellt niður. AFP

Mannréttindasinnar í Texas í Bandaríkjunum fögnuðu því í dag að frumvarp, sem hefði takmarkað aðgengi trans einstaklinga að almenningssalernum, hefur verið dregið til baka. Þó er talið að málið sé ekki endanlega dautt enn. 

Frumvarpið fól í sér að trans einstaklingar þyrftu að nota salerni sem merkt væru því líffræðilega kyni sem þeir fæddust í. Stuðningsmenn sögðu lögin vera sett í þeim tilgangi að vernda konur og börn gegn kynferðisglæpamönnum.

Andstæðingar sögðu lögin vera óréttlát og gera upp á milli einstaklinga. Þrátt fyrir að frumvarpið hafi verið dregið til baka telja andstæðingar þess að málið sé ekki dautt.

„Ég er augljóslega mjög ánægð… en við erum vör um okkur, vegna þess að þetta mun koma upp aftur á næsta löggjafarþingi,“ sagði Lisa Scheps, einn leiðtoga baráttu trans einstaklinga í Texas í viðtali við AFP fréttastofuna.

„Nú verðum við að byrja að vinna að því að berjast fyrir þessu aftur… málið er ekki dautt heldur sofandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert