Unnu skemmdir á íslenskri kirkju í Kanada

Grund Frelsiskirkjan í smábænum Baldur í Manitoba er talin ein …
Grund Frelsiskirkjan í smábænum Baldur í Manitoba er talin ein elsta starfandi íslenska kirkjan í Kanada. Ljósmynd/Grund Frelsiskirkjan Facebook

Skemmdir voru unnar á einni elstu starfandi íslensku kirkjunni í Manitoba í Kanada nú um helgina. Skemmdir voru unnar á líkneski af Jesú Kristi, sem talið er jafn gamalt kirkjunni, bjórdósir voru skildar eftir og einkennileg skilaboð rituð í gestabók kirkjunnar.

Fjallað er um málið í frétt kanadíska ríkissjónvarpskins CBS sem segir íbúa smábæjarins Baldurs, þar sem kirkjan stendur, nú leita svara.

„Það er erfitt að trúa því að einhver komi inn í kirkju og geri svona lagað,“ hefur CBC eftir Don Gudnason, sem er í sóknarnefnd kirkjunnar, sem nefnist Grund Frelsiskirkjan. Segir hann skemmdarvargana hafa látið til skarar skríða einhvern tímann eftir að útför fór fram í kirkjunni á sunnudag. Hann var svo kallaður til á mánudagsmorgni af sóknarbarni sem uppgötvaði skemmdirnar á líkneskinu á leið sinni til vinnu.

Líkneskinu hafði verið komið fyrir við stríðsminnismerki fyrir utan kirkjuna og búið var að brjóta hendurnar á styttunni og sprungur voru í handleggjunum.

„Ég hef ekki hugmynd um hvað þeir voru að spá,“ segir Gudnason sem telur að minnsta kosti tvo hafa verið að verki þar sem styttan er nokkuð þung.

Þegar inn í kirkjuna var komið hafði bjórdósum verið dreift um gólfið, bókastandur fyrir biblíu kirkjunnar var brotinn og búið að rita einkennileg skilaboð  - „drekkið bjór“ og „ásækið mig“ (e. haunt me) í gestabókina.

Gudnason segir söfnuðinn eiga erfitt með að trúa því að þetta hafi gerst. „Það eru allir í áfalli yfir að svona geti gerst hér í sveitinni,“ sagði hann.

Grund Frelsiskirkjan var byggð 1899. Talið er að hún sé elsta starfandi íslenska kirkjan í Kanada og hefur miklum fjármunum verið varið í endurbætur á henni á undanförnum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert