Lögregla gagnrýnd fyrir dráp á unglingi

Starfsmenn líkhússins í Manila flytja lík meintra eiturlyfjasala á brott …
Starfsmenn líkhússins í Manila flytja lík meintra eiturlyfjasala á brott eftir aðgerðir lögreglu í nótt. AFP

Lögreglan á Filippseyjum er nú undir mikilli pressu að útskýra dráp á 17 ára dreng. Rúmlega 80 manns hafa verið drepnir í aðgerðum lögreglu í þessari viku og er menntaskólaneminn Kian Loyd Delos Santos einn þeirra.

Aukin harka virðist vera að færast í stríð filippseysku lögreglunnar gegn fíkniefnum að sögn Reuters fréttastofunnar.

Filippseyskar sjónvarpsstöðvar hafa birt myndbönd úr eftirlitsmyndavélum sem sýna hvar tveir menn sjást bera lík Santosar á milli sín og skilja eftir á þeim stað þar sem það síðar fannst. Þykir þetta vekja efasemdir um þær fullyrðingar lögreglu að Santos hafi skotið á lögreglu, sem í kjölfarið hafi skotið á hann.

ABS-CBN sjónvarpsstöðin hefur eftir vitnum að Santos hafi verið óvopnaður og að lögregla á vettvangi hafi rétt honum byssu, sagt honum að skjóta úr henni og hlaupa svo í burtu.

Ronald dela Rosa, ríkislögreglustjóri Filippseyja, sagði í viðtali við GMA sjónvarpsstöðina, að ef rétt reyndist að ekki hafi stafað ógn af Santosi, á muni lögreglumaðurinn sem skaut hann þurfa að svara til saka.

„Hugsaðu um þetta, hann er bara barn. Hvað ef þetta kæmi fyrir þitt barn,“ sagði Rosa. „Við munum rannsaka þetta, ég fullvissa ykkur um það.“

Oscar Albayalde, lögreglustjóri Manila, sagði lögreglumennina þrjá sem tóku þátt í aðgerðinni  hafa verið leysta frá störfum og að atvikið sem átti sér stað í Caloocan hverfinu verði rannsakað.

Filippseyska lögreglan drap 13 hið minnast í aðgerðum sínum síðustu nótt og er tala látinna í aðgerðum lögreglu þessa vikuna þá komin upp í 80.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert