Ökumaðurinn hugsanlega látinn

Moussa Ouka­b­ir.
Moussa Ouka­b­ir. Mynd/Skjáskot Twitter

Hinn 17 ára gamli Moussa Ouka­b­ir, sem talinn er hafa verið ökumaður sendiferðabílsins sem ekið var á hóp fólks á Römblunni í Barcelona í gær, gæti verið einn þeirra fimm sem lögreglumenn skutu til bana í bænum Cambrils í gær. Þetta segir spænska lögreglan að því er fram kemur á vef Sky fréttastofunnar.

Þrettán manns létust og yfir hundrað særðust í hryðjuverkaárásinni. Er Oukabir sagður hafa hlaupið af vettvangi eftir að hafa ekið bílnum inn í mannfjöldann. 

Moussa er bróðir Driss Oukabir sem handtekinn var í gær, grunaður um aðild að hryðju­verka­árás­inni, en skil­ríki þess síðar­nefnda voru notuð til að leigja sendi­ferðabíl­inn.

Skilríki Driss Oukabir voru notuð til að leigja sendi­ferðabíl­inn.
Skilríki Driss Oukabir voru notuð til að leigja sendi­ferðabíl­inn. AFP

Car­les Puig­demont, for­seti Katalón­íu, varaði við því í út­varps­viðtali í morg­un að grunaður hryðju­verkamaður hefði kom­ist und­an eft­ir hryðju­verka­árás­ina og á meðan hann væri á flótta gæti enn stafað hætta af hon­um.

Spænska lög­regl­an kom seint í gær­kvöldi í veg fyr­ir aðra hryðju­verka­árás í bæn­um Cambrils, um 100 km suður af Barcelona. Þar voru fimm meint­ir hryðju­verka­menn skotn­ir til bana, en þeir voru í sendi­ferðabíl sem ók á gang­andi veg­far­end­ur í bæn­um með þeim af­leiðing­um að einn lést og sjö særðust.

Sorg ríkir í Barcelona.
Sorg ríkir í Barcelona. AFP

Árás­ar­menn­irn­ir á Römblunni í gær eru tald­ir hafa ætlað sér að nota ein­hvers kon­ar gassprengj­ur í árás­inni til að valda enn meiri skaða, en talið er að árás­irn­ar í Bar­celona og Cambrils teng­ist spreng­ingu sem varð í húsi í bæn­um Alcan­ar á miðviku­dag. Einn lést í þeirri spreng­ingu, en að sögn lög­reglu­stjór­ans, Joseps Llu­is Tra­peros, virðist sem íbú­ar húss­ins hafi verið að út­búa gassprengj­ur.

Yf­ir­völd í Katalón­íu segja það nú í for­gangi að bera kennsl á árás­ar­menn­ina og sýna fram á tengsl þeirra þriggja sem hand­tekn­ir hafa verið, þeirra sem felld­ir hafa verið og þeirra sem komust und­an. Talið er að þeir séu hluti af 12 manna hópi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert