Bílstjórinn mögulega enn á lífi

Younes Abouyaaqoub er talinn hafa ekið bílnum á fólkið í …
Younes Abouyaaqoub er talinn hafa ekið bílnum á fólkið í Barcelona. AFP

Talið er að ökumaður bílsins sem ók á mannfjöldann á Römblunni í Barcelona í fyrradag sé  enn á lífi, að sögn spænsku lögreglunnar.

Leitin beinist nú að Younes Abouyaaqoub, ungum manni sem fæddur er í Marokkó. Í fyrstu var talið að hinn sautján ára gamli Moussa Oukabir hefði ekið bílnum. Hann var meðal þeirra fimm sem lögreglan skaut eftir árásina í Cambrils, vestur af Barcelona.

Lögreglan telur að hryðjuverkamennirnir hafi ætlað sér að fremja fleiri árásir. 

Abouyaaqoub er 22 ára og býr í bænum Ripoll norður af Barceolona. Þrír hafa verið handteknir í þeim bæ vegna málsins og einn í Alcanar.

Lögreglustjórinn Josep Trapero sagði seint í gærkvöldi að nú væri kenningin sú að Abouyaaqoub hefði ekið bílnum, ekki Oukabir eins og í fyrstu var talið. 

Oukabir er grunaður um að hafa notað skilríki bróður síns til að leigja sendibílinn sem síðar var ekið á mannfjöldann. Hann leigði einnig annan bíl sem fannst nokkrum klukkustundum síðar í bænum Vic, norður af Barcelona. Sá er talinn hafa átt að þjóna hlutverki flóttabíls.

Snemma í gær skaut lögreglan til bana fimm meinta árásarmenn, þeirra á meðal Oukabir, í Cambrils. Þá hafði hópurinn ekið á hóp vegfarenda. Ein kona lést og sex særðust.

Árásarmennirnir veltu bíl sínum og lögreglan skaut þá um leið og þeir komu út úr honum. Einn þeirra er sagður hafa verið vopnaður hnífi. 

Einn lögreglumaður felldi fjóra árásarmannanna.

Younes Abouyaaqoub, sem talinn hafa ekið bílnum á fólkið á Römblunni, er nú leitað.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert