Útlimirnir vísvitandi skornir af

Sænska blaðakonan Kim Wall.
Sænska blaðakonan Kim Wall. AFP

Höfuðið, hendurnar og fæturnir voru vísvitandi skorin af líkinu sem fannst við Amager-strönd í Kaupmannahöfn síðdegis í gær. Lengd búksins sem fannst í fjörunni kemur heim og saman við áætlaða lengd sænsku blaðakonunnar Kim Wall, að sögn lögreglunnar í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í frétt danska ríkisútvarpsins DR.

Umfangsmikil leit hefur staðið yfir að líki Kim Wall í Eyrarsundi í meira en eina viku, en danski auðmaðurinn Peter Madsen situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Hann segir blaðakonuna hafa látist af slysförum um borð í kafbáti hans og að hann hafi hent líki hennar fyrir borð í Køge-flóa. 

Rannsókn dönsku lögreglunnar á líkinu verður haldið áfram og búist er við niðurstöðum úr DNA-prófi á morgun. Þá kemur í ljós hvort líkið er af blaðakonunni sænsku.

Kafarar við leit í Eyrarsundi.
Kafarar við leit í Eyrarsundi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert