Blóð úr Kim Wall fannst í bátnum

Kafbáturinn daginn áður en hann sökk.
Kafbáturinn daginn áður en hann sökk. AFP

Blóð úr sænsku blaðakonunni Kim Wall fannst í kafbátnum sem sökk daginn eftir að Wall hvarf 10. ágúst. Líkið af Wall fannst á mánudag skammt fyrir utan Amager. Líkið var aflimað en lífsýni hafa leitt í ljós að um líkamsleifar hennar er að ræða. Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í Kaupmannahöfn sem hófst klukkan sjö að íslenskum tíma í morgun.

„Við leitum að sjálfsögðu þeirra líkamshluta sem enn er saknað,“ sagði Jens Møller, aðstoðaryfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni, á fundi með blaðamönnum. Hann segir að málmhlutur hafi fundist á líkinu sem átti að tryggja að líkið myndi sökkva til botns.

Jafnframt voru áverkar á líkinu sem benda til þess að ódæðismaðurinn hafi vísvitandi reynt að lofttæma líkið til þess að tryggja enn frekar að það sykki. 

Jens Møller segir að þangað til í dag hafi lögreglan litið á líkfundinn og svokallað kafbátamál sem tvö aðskilin mál. „En við gerum það ekki lengur,“ sagði hann á blaðamannafundinum. Fór hann yfir það sem rannsóknin hefur skilað, svo sem blóðleifar um borð í kafbátnum og að málmhlut hafi verið komið fyrir á líkinu til þess að tryggja að það sykki. Jafnframt að 38 þúsund lítrar af vatni hafi verið inni í kafbátnum þegar hann sökk sem sýni að honum hafi verið sökkt vísvitandi.

Á mánu­dag greindi lög­regl­an frá því að Peter Madsen, eig­andi og skip­stjóri kaf­báts­ins, sem sit­ur í gæslu­v­arðhaldi vegna and­láts Kim Wall, hafi breytt framb­urði sín­um þegar hann kom fyr­ir dóm­ara en áður hafði hann haldið því fram að hann hafi sett Wall á land í Kaup­manna­höfn. Madsen heldur því fram að Wall hafi látist af slysförum um borð í kafbátnum og hann hafi hent líkinu útbyrðis einhvers staðar í Køge-flóa.

Fram kom á blaðamannafundinum að dánarorsök Kim Wall liggi ekki enn fyrir. 

Frétt Politiken af blaðamannafundinum

Upptaka Ekstra Bladet af fundinum

Umfjöllun danska ríkisútvarpsins

Kim Wall.
Kim Wall. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert