Peter Madsen: „Bölvunin er ég“

Peter Madsen.
Peter Madsen. AFP

Sérvitur uppfinningamaður, ofsatækisfullur og skapljótur. Þannig hefur danska kafbátahönnuðinum Peter Madsen verið lýst. Starfsferill Madsen hefur ef marka má sögusagnir einkennst af misbrestum í starfi, geðsveiflum og vilja til að fara einn sínar leiðir.

Madsen er grunaður um að hafa orðið sænsku blaðakonunni Kim Wall að bana en útlimalaust lík hennar fannst nokkrum dögum eftir að tilkynnt var um hvarf hennar. Hún hafði áður en hún hvarf unnið að fréttaumfjöllun um manninn sem nú situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um að hafa ráðið hana af dögum.

Allt sitt líf hefur Madsen varið tíma sínum og kröftum í að reyna að rjúfa hindranir himingeims og hafs.

„Ástríða mín er að finna leiðir til að ferðast til annarra heima en þeirra sem við þekkjum,“ skrifar Madsen á heimasíðu sína „Rocket Madsen Space Lab.“ Hann er sjálflærður verkfræðingur og nokkuð vel þekktur í Danmörku. Svo virðist sem hans síðasti leiðangur endurspegli persónu hans með nokkuð öðrum hætti.

Líkið hlekkjað við járn

Hinn 10. ágúst steig hann um borð í heimasmíðaðan kafbát sinn, 18 metra langa bátinn Nautilus, ásamt blaðakonunni Kim Wall. Tilkynnt var um hvarf hennar daginn eftir en hún hafði þá ekki skilað sér eftir viðtalið sem hún hugðist taka við kafbátasmiðinn.

Madsen var sjálfum bjargað skömmu áður en kafbáturinn sökk en talið er að bátnum hafi verið sökkt viljandi. Í upphafi sagðist Madsen hafa skilað Wall í land á eyju við Kaupmannahöfn en breytti síðar framburði sínum og sagði hana hafa látist af slysförum um borð í bátnum. Hann hafi varpað líki hennar frá borði og í hafið.

Rannsókn stendur yfir á morði sænsku blaðakonunnar Kim Wall.
Rannsókn stendur yfir á morði sænsku blaðakonunnar Kim Wall. AFP

Útlimalaust lík Wall fannst svo á floti út við strönd Kaupmannahafnar á mánudaginn hlekkjað við járn sem hélt líkinu niðri. Lýsingin minnir helst á hryllingssögu.

„Hvernig er að eiga pabba sem er skúrkur?“

Madsen stýrði einkafyrirtæki við kafbátasmíðar og geimrannsóknir, sem nýlega leiddi til grasrótarátaks um að hefja smíði eldflauga byggðra af áhugamönnum í stað yfirvalda eða fjölþjóðafyrirtækja.

Hinn 46 ára gamli Madsen, sem sagður er vera giftur, hefur þó í gegnum tíðina lent upp á kant við marga og reitt fólk til reiði. Þá hefur hann greint frá erfiðleikum sem hann glímdi við í æsku.

Madsen ólst upp í litlum bæ að nafni Saeby, um 100 kílómetra vestur af Kaupmannahöfn. Móðir hans var 36 árum yngri en faðir hans sem hefur verið lýst sem ofbeldishneigðum og valdasjúkum. Foreldrar hans skildu þegar Madsen var sex ára gamall og bjó hann þá hjá föður sínum.

„Þegar ég hugsa um föður minn, þá hugsa ég um það hvernig börnunum í Þýskalandi hlýtur að hafa liðið ef pabbi þeirra væri liðsforingi í útrýmingarbúðum. Hvernig er tilfinningin að vita að pabbi þinn sé skúrkur?“ sagði Madsen í viðtali um ævi sína við blaðamanninn Thomas Djursing árið 2014.

Þrátt fyrir þetta var dálæti feðganna á sögum um stríð og herþotur nokkuð sem þeir áttu sameiginlegt.

Hætti í skóla því hann vissi nóg

Aðeins 15 ára gamall stofnaði Madsen sitt fyrsta fyrirtæki, Dönsku geimfarastofnunina (e.Danish Space Academy), í þeim tilgangi að kaupa varahluti til að byggja eldflaugar.

Faðir hans lést þremur árum síðar, þá 81 árs að aldri, en þá hóf Madsen nám í verkfræði. Hann hætti hins vegar í námi þegar hann áttaði sig á því að sennilega vissi hann hvort sem er nógu mikið til að geta smíðað kafbáta og eldflaugar.

Lögreglan í Svíþjóð og Danmörku hafa hjálpast að við rannsókn …
Lögreglan í Svíþjóð og Danmörku hafa hjálpast að við rannsókn málsins. AFP

Árið 2008 var kafbáturinn Nautilus fyrst settur á flot, þá stærsti heimagerði kafbáturinn sem nokkurn tímann hafði verið smíðaður. Um svipað leyti þróaði Madsen hugmyndir sínar um ferðalög út í geiminn. Í júní árið 2011 tókst honum að skjóta eldflaug af fljótandi pramma af eyjunni Bornholm í Eystrasaltinu.

Reiður út í allt og alla

Í lýsingu blaðamannsins Djursing er Madsen ekki sagður vera ofbeldishneigður og að hann drekki hvorki áfengi né neyti fíkniefna. Þá segja vinir hans hann vera ósveigjanlegan, honum mislíki að vera andmælt og hann sýni reglulega miklar skapsveiflur.

„Hann er reiður út í Guð og alla,“ sagði Djursing í viðtali við Jyllands-Posten um miðjan þennan mánuð. „Árekstrar hafa fylgt honum alla tíð. Hann á erfitt með að láta sér semja við annað fólk – hann er með háleit markmið og vill fá öllu sínu framgengt.“

Þá segir Benny Langkjaer Egeso, hálfbróðir Madsens, í samtali við sænska blaðið Expressen, bróður sinn vera „mjög skrítinn og það gerir hann að sínum eigin versta óvini akkúrat núna.“

Ófélagslyndur og hélt til í kafbátnum

Þá er Madsen sagður eiga fáa persónulega muni og eigur og heldur hann oft til í kafbátnum sínum. Þá segir vinur hans og samstarfsfélagi að nafni Gwaino Razza að Madsen sé „einstakur en ekki félagslyndur“.

Fyrstu eldflaugarnar sem hann sendi út í geim voru afrakstur samvinnu Madsens og fyrrverandi NASA-starfsmannsins og arkitektsins Kristian von Bengtson. Leiðir þeirra skildi þó í kjölfar deilna þeirra á milli árið 2014 og stofnaði Madsen þá sitt eigið geimfyrirtæki, RLM Space Lab.

„Ég er fullkomlega meðvitaður um að það er stóru skapi mínu að kenna að Kristian hætti og mér þykir miður að til þess hafi komið,“ sagði Madsen í yfirlýsingu á sínum tíma.

„Mun aldrei líða vel um borð í kafbátnum“

Þá átti Madsen einnig í deilum við hóp 25 sjálfboðaliða sem hann hafði leitt í þrjú ár við smíðina á Nautilus. Í kjölfar deilna árið 2015 var eignarhald kafbátsins þó fært yfir á hann.

Hafði Madsen þá sent SMS-skilaboð til tveggja áhafnarmanna þar sem sagði: „Það hvílir engin bölvun á Nautilus. Bölvunin er ég. Það verður aldrei friður um borð í Nautilus svo lengi sem ég lifi,“ skrifaði Madsen.

„Þér mun aldrei líða vel um borð í kafbátnum… ekki verja meira lífsblóði í þennan bát,“ á Madsen að hafa skrifað í SMS-skilaboðunum sem hann sendi sjálfboðaliðunum.

Sjálfur hefur Madsen lýst því yfir að hann kjósi helst að starfa einn. „Ég starfa sem einn maður, það er styrkurinn sem felst í einræði,“ sagði Madsen árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert