Kynþáttahatari sá næsti sem deyr

Mark Asay.
Mark Asay. Ljósmynd Florida Department of Corrections

Hvítur kynþáttahatari, Mark Asay, verður tekinn af lífi í Flórída í kvöld fyrir að hafa myrt tvo svarta menn vegna kynþáttar þeirra. Um fyrstu aftökuna í ríkinu er að ræða í 19 mánuði. Lyfjablandan sem verður notuð við aftökuna hefur aldrei verið notuð við aftöku í Bandaríkjunum áður.

Mark Asay er fyrsti hvíti maðurinn sem er tekinn af lífi í Flórída fyrir að hafa myrt svartan einstakling.

Asay, sem er 53 ára gamall, skaut tvo menn til bana í Jacksonville fyrir 30 árum. Aftökunni var frestað fyrr á árinu vegna harðra deilna um dauðarefsingar og efasemda um lyfin sem notuð eru í Flórída-ríki við aftökuna.

Lyfjablandan sem notuð verður við aftökuna í Raiford-ríkisfangelsinu klukkan 18 að staðartíma, klukkan 22 í kvöld að íslenskum tíma, hefur aldrei verið notuð við aftöku áður í Bandaríkjum en um blöndu þriggja lyfja er að ræða.

Óttast ýmsir að dauðdaginn geti reynst kvalafullur þar sem ekki er full vissa um áhrif lyfjablöndunnar og ekki hafa verið gerðar neinar tilraunir með hvernig lyfin virka saman á mannslíkamann. Fyrsta lyfið sem verður dælt inn í blóðrás Asay er róandi lyf (anaesthetic etomidate) en veitt var heimild til að nota það þegar nýjar reglur tóku gildi varðandi aftökur í Flórída í janúar.

Að sögn prófessors í lyfjafræði er líklegt að maðurinn sem er verið að taka af lífi verði vakandi allan tímann sem lyfjagjöfin fer fram – það er þegar síðasta lyfinu er dælt í hann. Lyfi sem stöðva á hjarta hans í kjölfar þess að hann fær stóran skammt af vöðvaslakandi sem er lyf númer tvö.

Lyf sem á að bjarga mannslífum

Lyfjafyrirtækið Johnson & Johnson, sem fyrst framleiddi róandi lyfið sem notað er við aftökuna, hefur sent frá sér tilkynningu þar sem notkunin er hörmuð. Lyfið hafi verið fundið upp og framleitt fyrst fyrir hálfri öld í þeim tilgangi að bjarga mannslífum og auka lífslíkur –ekki til þess að taka fólk af lífi við aftökur. Samheitaútgáfa frumlyfsins verður notuð við aftökuna í kvöld.

Okkar starf er bjarga mannslífum, koma í veg fyrir sjúkdóma og veita aðstoð við að lækna helstu sjúkdóma sem hrjá mannkynið, segir talsmaður fyrirtækisins við Guardian. „Við leggjum ekki blessun okkar yfir notkun lyfja okkar við aftökur.“

Flórída-ríki ákvað í janúar að nota lyfið í stað midazolam sem hefur lengi verið notað við aftökur en fékkst ekki lengur vegna þess að framleiðendur og dreifingaraðilar neituðu að afhenda það til notkunar við aftökur. Eins hafa komið upp skelfileg atvik þar sem fangarnir hafa kvalist hrottalega við aftökur sem er brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Maya Foa, framkvæmdastjóri Reprieve-mannúðarsamtakanna, segir að lyf eigi ekki að nota við aftökur og segir að sérfræðingar telji þessa lyfjablöndu þá verstu sem notuð hefur verið.

„Sýna negrum hver ræður“

Fram kom við réttarhöldin yfir Asay árið 1988 að hann hafi mætt Robert Lee Booker í húsasundi að næturlagi í miðborg Jacksonville. Skaut hann fórnarlambið í magann og hreytti í það rasískum ókvæðisorðum. Þegar Asay var spurður hvers vegna hann hafi skotið svaraði hann: „Af því að þú verður að sýna negrum hver ræður.“

Síðar þessa sömu nótt skaut Asay Robert McDowell til bana en McDowell, sem var 26 ára gamall, var klæddur í kvenmannsföt og taldi Asay að hann hefði greitt vændiskonu fyrir munnmök ekki karli. 

Ríkisstjóri Flórída, Rick Scott, hefur skrifað undir dauðadóminn yfir Asay og því fátt sem getur komið í veg fyrir aftökuna en Asay er 23. einstaklingurinn sem Scott kveður upp dauðadóm yfir á sjö árum. 

Frétt Guardian

Frétt CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert