Skotinn í höfuðið og skilinn eftir við svínastíu

Bekkjarfélagar hins 17 ára Kian delos Santos mótmæla hér drápinu …
Bekkjarfélagar hins 17 ára Kian delos Santos mótmæla hér drápinu á honum. AFP

Kian Loyd delos Santos var 17 ára filippseyskur drengur sem dreymdi um að verða lögreglumaður eftir að hann útskrifaðist úr menntaskóla. Í síðustu viku drógu óeinkennisklæddir lögreglumenn hann inn í dimmt húsasund, skutu hann í höfuðið og skildu lík hans eftir við hliðina á svínastíu að sögn vitna. Myndbönd úr eftirlitsvélum virðast vera til marks um þessa atburðarás.

Lög­regl­an á Fil­ipps­eyj­um er nú und­ir mik­illi pressu að út­skýra dráp de­los Santos, en það hefur vakið mikla reið hjá almenningi í landinu. Andstaðan við fíkniefnastríð forsetans Rodrigo Duterte hefur aukist verulega í kjölfarið. Fram að drápinu á delos Santos var hún ekki mikil, þrátt fyrir að þúsundir hafi verið myrtar frá því að Duterte tók við embætti fyrir 14 mánuðum.

Lorenza Delos Santos, móðir Kians, hefur lagt fram kæru á …
Lorenza Delos Santos, móðir Kians, hefur lagt fram kæru á hendur lögreglumönnunum sem skutu hann. AFP

Segjast hafa skotið í sjálfsvörn

Lögregla fullyrðir að hún hafi skotið delos Santos í sjálfsvörn. Hann hafi skotið á lögreglumenn í fíkniefnaaðgerð og þeir orðið að bregðast við. Það vakti því mikla reiði meðal almennings þegar myndband úr eftirlitsmyndavél var birt sem sýndi tvo lögreglumenn draga hnípinn og að því er virðist óvopnaðan mann á milli sín að þeim stað þar sem lík delos Santos fannst.

Þrír lögreglumenn eru nú í haldi að sögn lögregluyfirvalda í Manila. Þeir verja gjörðir sínar og fullyrða að hann hafi skotið á þá.

Foreldrar delos Santos hafa ásamt lagaaðstoð ríkisins lagt fram ákæru á hendur lögreglumönnunum.

„Gefið okkur færi á að framkvæma rannsókn á málinu og ekki draga neinar ályktanir eða fella dóma í flýti. Leyfum hinum ákærðu að verja sig fyrir rétti,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Dionardo Carlos, talsmanni filippseysku lögreglunnar.

Of fátækur til að eiga byssu

Blaðamenn Reuters hafa rætt við rúmlega 20 vitni, vini delos Santos og nágranna. Þeir segja hann hafa verið ljúfan dreng og vinsælan. Hann hafi haft gaman af að grínast og hafi hvorki neytt áfengis né fíkniefna. Þá hafi hann verið of fátækur til að eiga byssu.

„Grínistinn okkar er horfinn,“ sagði Sharmaine Joy Adante, ein vinkvenna hans. Hún segir hann hafa dreymt um að ganga í lögregluna svo að móðir hans, sem vinnur í Sádí-Arabíu, hefði efni á að búa á Filippseyjum.

Sumir nágrannar fjölskyldunnar segjast vera hræddir við að tjá sig og þeir óttist hefnd lögreglu.

Með skammbyssu í buxnastrengnum

Það var um áttaleytið um kvöld 16. ágúst sem rafsuðumaðurinn Erwin Lachica sá þrjá óeinkennisklædda menn koma inn á svæðið á tveimur mótorhjólum. Allir þrír voru með skammbyssu í buxnastrengnum.

Lögreglumennirnir Jerwin Cruz og Arnel Oares fullyrða að delos Santos …
Lögreglumennirnir Jerwin Cruz og Arnel Oares fullyrða að delos Santos hafi verið með byssu og að hann hafi skotið á þá. AFP

Hann hafði séð þá áður við lögregluaðgerðir í hverfinu, en borin hafa verið kennsl á þá sem lögreglumennina Arnel Oares, Jeremias Pereda og Jerwin Cruz. Þeir segja delos Santos hafa skotið á þá og þeir svarað fyrir sig. „Það var dimmt. Hann skaut á okkur,“ sagði Perada við yfirheyrslur hjá þingnefnd í vikunni. „Við vissum að þetta var byssa. Hvellurinn var hár og við sáum ljósblossa.“

Lögregla hefur borið fyrir sig sjálfsvörn vegna dráps á rúmlega 3.500 einstaklingum frá því að Duterte hóf fíkniefnastríð sitt.

Sagði að hann væri saklaus

Frásögn Lachica er ólík frásögn lögreglu. Hann segir delos Santos hafa staðið fyrir utan verslun þegar hann var gripinn og laminn þar til hann fór að gráta. Enginn byssubardagi hafi átt sér stað.

„Hann sagði að hann væri saklaus. Hann væri ekki fíkniefnanotandi,“ sagði Lachia. Mennirnir hefðu því næst dregið hann með sér á brott.

Eftirlitsmyndavél í nágrenninu sýnir síðan tvo menn ganga með þann þriðja, sem lútir höfði, yfir körfuboltavöll í grenndinni og sá þriðji fylgir á eftir.

Lögreglumennirnir viðurkenndu fyrir þinginu að þetta væru vissulega þeir sem sæjust á myndbandinu. Maðurinn á milli þeirra væri hins vegar alls ekki delos Santos, heldur uppljóstrari. Fjöldi vitna sagði Reuters hins vegar að þeir hefðu borið kennsl á drenginn sem delos Santos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert