4 ára missti alla fjölskylduna í loftárás

Minnst tólf manns létust í loftárásinni sem gerð var á …
Minnst tólf manns létust í loftárásinni sem gerð var á íbúðablokk í höfuðborginni Sanaa á föstudaginn. Þar af voru nokkur börn. AFP

Ungri stúlku var bjargað úr húsarústum eftir loftárás sem gerð var í Sanaa, höfuðborg Jemen, á föstudaginn. Buthaina Muhammad Mansour er talin vera fjögurra eða fimm ára gömul og var hún sú eina í fjölskyldu sinni sem lifði af þegar sprengju var varpað á heimili fjölskyldunnar. Hinir átta, foreldrar Buthainu, fimm systkini og frændi, féllu öll í árásinni.

Þrátt fyrir heilahristing og sprungur í höfuðkúpu telja læknar að hún muni ná bata. Loftárásin var gerð á íbúðabyggingu í höfuðborginni og telja íbúar hernaðarbandalag leitt af Sádi-Aröbum standa á bak við verknaðinn. Minnst tólf féllu í árásinni.

Átök hafa varað um hríð í Jemen og talið er að minnst tíu þúsund manns hafi fallið. Þá hafa milljónir þurft að yfirgefa heimili sín og eru sjúkdómar og hungur daglegt brauð. Hjálparsamtök hafa kallað eftir hraðari úrlausn vandans og segja að að óbreyttu stefni í stærsta mannúðarhneyksli allra tíma.

Frétt mbl.is: 

Heyrði öskur undan rústunum

Þar sem Buthaina lá á sjúkrarúmi á spítala í Sanaa kallaði hún nafn frænda síns Mounir. Hún vissi ekki þá að hann, og raunar öll fjölskylda hennar, hafi látist í árásinni.

Að sögn annars ættingja, Saleh Muhammad Saad, sem Reuters ræddi við, hafði Mounir farið í flýti að heimili Buthainu litlu eftir að faðir hennar hringdi um miðja nótt til að láta hann vita að herþotur vörpuðu sprengjum í nágrenninu. Mounir sneri aldrei til baka.

Þegar Saleh bar að garði var heimili fjölskyldunnar einar rjúkandi rústir. Hann heyrði óp og köll eftirlifenda sem fastir voru í rústunum og reyndi að hjálpa þeim út.

AFP

„Ég heyrði öskur eins nágranna þeirra undan rústunum og reyndi að færa brakið ofan af föður Buthainu og eiginkonu hans en gat það ekki. Þau dóu,“ sagði Saleh.

„Við grófum brakið frá og fyrst sáum við Ammar bróður hennar sem var þriggja ára og systur hennar fjórar, öll dáin. Ég stoppaði í smá stund og öskraði af sársauka. En ég tók mig saman í andlitinu og hélt áfram og þá heyrði ég Buthainu kalla.“ Hann segir huggun felast í því að hún hafi komist lífs af.

„Raghad systir hennar kom alltaf og faðmaði mig og kyssti þegar ég kom í heimsókn. Ég sagði þá við hana „láttu ekki svona, nú er komið gott,“ og þá svaraði hún, „ó nei, það er ekki komið gott!“ og hélt áfram að knúsa og kyssa,“ segir Salah.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert