Kæra trans-bann Trump

Ákvörðun forsetans hefur vakið hörð viðbrögð.
Ákvörðun forsetans hefur vakið hörð viðbrögð. AFP

Borgarafrelsissamtök í Bandaríkjunum, (e. American Civil Liberties Union) hafa stefnt Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir ákvörðun sína um að banna transfólki að gegna herþjónustu. Sex trans-einstaklingar sem þegar gegna herþjónustu lögðu fram stefnuna í dag í nafni samtakanna.

Trump undirritaði minnisblað um að endurvekja bann við því að heimila transfólki að gegna herþjónustu á föstudaginn en í síðasta mánuði hafði forsetinn lýst því yfir á Twitter að hann hygðist leggja bannið á.

Bannið sem áður hafði verið í gildi var afnumið í embættistíð Baracks Obama í fyrra. ACLU vill meina að bannið stuðli að mismunun og brjóti í bága við stjórnarskrárbundið ákvæði um jöfn réttindi borgaranna.

Samtökin segja bannið vera „illkvittið“ og það byggi á „goðsögnum og staðalímyndum“ og „vilja til að vinna transfólki mein,“ að því er segir í stefnunni.

Um er að ræða aðra lögsóknina sem tilkynnt er um í dag vegna þessa en fleiri samtök um réttindi hinsegin fólks og þrír trans-einstaklingar hafa jafnframt lagt fram kvörtun vegna ákvörðunar forsetans. Tveir þeirra hafa óskað eftir að fá að gegna herþjónustu en sá þriðji gegnir þegar herþjónustu.

Talið er að á milli fjögur og tíu þúsund manns sem þegar gegna herþjónustu í Bandaríkjunum séu trans.

„Hverja einustu fullyrðingu Trump forseta til að réttlæta bannið má auðveldlega hrekja á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem varnarmálaráðuneytið sjálft hefur komist að um málið,“ skrifar Joe Block, lögfræðingur hjá ACLU, í yfirlýsingu á heimasíðu samtakanna.

„Það að leyfa körlum og konum sem eru trans að gegna herþjónustu með opnum hætti og með því að útvega þeim alla nauðsynlega heilbrigðisþjónustu hefur ekki í för með sér nokkurn skaða hvað varðar viðbragðsgetu hersins eða samheldni innan herdeilda.“

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Ein stefnendanna hefur þjónað í hernum í ellefu ár og hefur meðal annars gegnt herþjónustu í Afganistan. Óvissa ríkir nú um stöðu hennar og þúsunda annarra einstaklinga innan hersins eftir að Trump fól Jim Mattis varnarmálaráðherra að taka ákvörðun um hvort að þeir einstaklingar, sem þegar gegna herþjónustu, fái að halda starfi sínu áfram.

Rökin sem færð voru fyrir banninu voru á þeim forsendum að því fylgi of mikill kostnaður fyrir ríkið að tryggja transfólki sem starfar í hernum viðeigandi læknisþjónustu. Þau rök sem og bannið sjálft hafa verið harðlega gagnrýnd.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert