Lögregla má drepa „fífl“ sem forðast handtöku

Ættingjar og stuðningsmenn hins 17 ára gamla Kian Delos Santos …
Ættingjar og stuðningsmenn hins 17 ára gamla Kian Delos Santos í jarðarförinni sem breyttist í mótmælagöngu á laugardag. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, tilkynnti lögreglumönnum í dag að þeir mættu drepa „fífl“ sem reyndu að forðast handtöku. Tveir dagar eru frá því að rúmlega þúsund Filippseyingar breyttu jarðarför hins 17 ára gamla Kian delos Santos, sem var skotinn í höfuðið af lögreglumönnum og skilinn eftir hjá svínastíu, í mótmælafund gegn banvænu fíkniefnastríði Dutertes.

Reuters-fréttastofan segir Duterte hafa hitt foreldra delos Santos í forsetahöllinni í Manila í dag og fullvissaði þau um að fyllsta réttlætis yrði gætt við rannsókn á máli sonar þeirra. Lorensa delos Santos, móðir Kians, sagði að fundi loknum að hún væri þess fullviss að forsetinn myndi aðstoða við snögga lausn á málinu. Saldy, faðir hans, sagðist ekki lengur óttast um líf þeirra og að fundurinn hefði fyllt hann öryggi.

„Hann hét því að þeim sem hefðu gert eitthvað af sér yrði refsað,“ var haft eftir móðurinni í viðtali sem birt var á opinberri Facebook-síðu forsetans.

Vakti reiði hjá almenningi

Þúsund­ir hafa lát­ist frá því að Rodrigo Duterte, for­seti Fil­ipps­eyja, lýsti yfir um­deildu stríði gegn fíkni­efn­um í fyrra. Er her­ferð for­set­ans ætlað að þurrka með öllu út fíkni­efnaviðskipti í land­inu. Hún hef­ur hins veg­ar verið harðlega gagn­rýnd af mann­rétt­inda­sam­tök­um og alþjóðasam­fé­lag­inu vegna fjölda dauðsfalla.

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, fundar með foreldrum Kians delos Santos, …
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, fundar með foreldrum Kians delos Santos, þeim Lorenzu delos Santos og Saldy delos Santos. AFP

Andstaða við fíkniefnastríðið hefur hins vegar verið lítil innanlands, allt þar til drápið á delos Santos vakti mikla reiði hjá almenningi.

Rúmlega 1.000 manns, m.a. nunnur, prestar og hundruð barna, tóku þátt í jarðarför delos Santos á laugardag, sem fyrir vikið varð ein fjölmennasta mótmælaganga gegn fíkniefnastríði Dutertes til þessa. 

„Frjálst að drepa fíflin“

Fyrr í dag gerði Duterte hlé á ræðu sem hann var að flytja í Hero’s-kirkjugarðinum í útjaðri Manila og sagði við Jovie Espenido, lögreglustjóra í bæ í suðurhluta landsins þar sem bæjarstjórinn var drepinn í fíkniefnaaðgerðum lögreglu:

„Skylda ykkar er að standast mótspyrnu þess sem þið eruð að handtaka [...][ef] hann spyrnir á móti og sýnir ofbeldi [...] þá er ykkur frjálst að drepa fíflin og það er skipun mín til ykkar,“ sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert