Tveir enn í haldi vegna árásar í Túrkú

AFP

Finnska lögreglan hefur látið tvo af fjórum mönnum sem voru í haldi vegna hnífaárásar í Túrkú lausa. Tveir létust og átta særðust í árásinni.

Fjórmenningarnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í síðustu viku vegna gruns um að eiga aðild að hryðjuverkaárásunum. Tveir þeirra liggja ekki lengur undir grun um að eiga aðild að árásunum, segir í tilkynningu frá rannsóknardeild ríkislögreglustjóra.

Tveir eru enn í haldi, árásarmaðurinn Abderrahman Bouanane og félagi hans. Bouanane er 22 ára gamall og kemur frá Marokkó. Hann var skotinn í lærið af lögreglu skömmu eftir árásina. Alls voru sjö handteknir í tengslum við rannsókn á árásinni í miðborg Túrkú 18. ágúst. Árásin er rannsökuð sem hryðjuverk og er þetta í fyrsta skipti sem hryðjuverk er framið í Finnlandi. Þremur var sleppt úr haldi á laugardag.

Að sögn lögreglu réðst Bouanane á konur í árásunum og létust tvær konur og sex konur særðust. Jafnframt særðust tveir karlmenn sem reyndu að stöðva hann.

Mohamed Bakier er einn þeirra sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Mohamed Bakier er einn þeirra sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald. AFP
Ilyas Berrouh var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna árásarinnar.
Ilyas Berrouh var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna árásarinnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert