Eins og jörðin hafi gleypt hana

Auglýsing um hvarf stúlkunnar hefur verið sett upp víða í …
Auglýsing um hvarf stúlkunnar hefur verið sett upp víða í Frakklandi en allt virðist benda til þess að henni hafi verið rænt. AFP

Ekkert hefur spurst til níu ára gamallar stúlku, Maëlys De Araujo, síðan aðfaranótt sunnudags en leit hófst að nýju snemma í morgun í Pont-de-Beauvoisin (Isère). Stúlkan var ásamt fjölskyldu sinni í brúðkaupi í bænum Isère í frönsku Ölpunum um helgina og sást hún síðast um þrjúleytið aðfaranótt sunnudags.

Í færslu lögreglunnar á Twitter kemur fram að leit hafi hafist að nýju klukkan 7:45 í morgun og að engin svæði verði undanskilin. Lögreglan notar meðal annars þyrlur, kafara og hunda við leitina. Eins hefur verið rætt við alla brúðkaupsgestina, alls 180 manns.

Maëlys De Araujo er leitað í frönsku Ölpunum.
Maëlys De Araujo er leitað í frönsku Ölpunum. AFP

Óttast er að stúlkunni hafi verið rænt en hundar röktu slóð hennar út á bílastæði og síðan er eins og jörðin hafi gleypt hana. Líklegast þykir að ræningjar hafi farið með hana á brott frá staðnum í bifreið. Maëlys De Araujo var ásamt foreldrum sínum, eldri systur og fleiri ættingjum í brúðkaupinu. Þegar í ljós kom að hún væri horfin voru veisluhöld stöðvuð og allir fór að leita að litlu stúlkunni.

Meðal annars hefur lögregla leitað á heimili umsjónarmanns veislusalarins og bíl hans en hann er ekki í haldi lögreglu vegna málsins né nokkur annar. Talið er að líklegra sé að henni hafi verið rænt en að hún hafi hlaupist á brott og er lögregla að fara yfir myndir og myndskeið úr símum allra veislugesta til þess að leita að einhverjum vísbendingum um hvarfið.

Salurinn þar sem Maëlys De Araujo hvarf aðfaranótt sunnudags.
Salurinn þar sem Maëlys De Araujo hvarf aðfaranótt sunnudags. AFP

Maëlys er níu ára gömul eins og áður sagði og 128 sm að hæð. Hún vegur 28 kíló, með brúna húð, dökk augu og kastaníubrúnt hár.

Frétt Le Parisien

Frétt Le Monde

Lögreglan við leit í Pont-de-Beauvoisin en Maëlys De Araujo hvarf …
Lögreglan við leit í Pont-de-Beauvoisin en Maëlys De Araujo hvarf þar um helgina. AFP
Maëlys De Araujo.
Maëlys De Araujo. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert