Fá alþjóðlega vernd í Kanada

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, tók þátt í gleðigöngunni í Toronto …
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, tók þátt í gleðigöngunni í Toronto 20. ágúst. AFP

Stjórnvöld í Kanada hafa veitt 31 manni frá Tsjet­sjen­íu hæli en mennirnir eru annað hvort samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu framkvæmdastjóra Rainbow Railroad samtakanna, Kimahli Powell,  sem starfa í Toronto. Segir þar að samtökin hafi getað veitt 31 hinsegin fólki (LGBT) aðstoð við að fara frá Rússlandi og fá alþjóðlega vernd í Kanada.

Forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, segir að Kanada sé stolt af því að standa upp og berjast fyrir réttindum fólks. Réttindi LGBTQ fólks séu gríðarlega mikilvæg hvort sem það er í Kanada eða annarsstaðar í heiminum. „Kanada mun alltaf standa fyrir réttindum fólks og vernda varnarlaust fólk í heiminum.“

Í frétt Globe and Mail kemur fram að utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland, hafi leikið lykilhlutverk í að veita fólkinu aðstoð en hún starfaði áður í Rússlandi. Mikil leynd hvíldi yfir málinu og er fyrst núna greint frá þessu en ferlið tók nokkrar vikur.

Freeland er ein þeirra sem fordæmdi ofsóknir í Tsjet­sjen­íu í apríl og sagði ofsóknir í garð homma og tvíkynhneigðra í landinu væri vítaverð framkoma ef rétt væri það sem kæmi fram í fréttum. Hvatti hún til þess að rússnesk yfirvöld rannsökuðu þessar ásakanir og tryggðu að allir íbúar Tsjet­sjen­íu sætu við sama borð þegar kæmi að mannréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert