Verður farið í hernað gegn N-Kóreu?

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tjáir sig um kjarnorkuvopnatilraun Norður-Kóreu á Twitter og segir orð og gerðir N-Kóreu áfram vera afar ógnandi og hættuleg í garð Bandaríkjanna.  Ummæli forsetans á Twitter má skilja sem hótun um hernaðaraðgerðir af hálfu Bandaríkjamanna.

Líkt og fram hefur komið sprengdu stjórnvöld í Norður-Kóreu kjarnorkusprengju í nótt og segja að tilraunin með vetnissprengjuna hafi heppnast fullkomlega. Hægt sé að koma henni fyrir á langdrægri eldflaug sem dragi til annarra heimsálfa.

Síðasta kjarnorkuvopnatilraun Norður-Kóreu var gerð í september 2016 en alls eru tilraunirnar orðnar sex talsins. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað lagt refsiaðgerðir á Norður-Kóreu og væntanlega verður ráðið kallað saman nú vegna nýjasta útspils N-Kóreu.

Suður-Kórea, Kína, Rússland og Japan hafa þegar lýst þungum áhyggjum vegna tilraunarinnar í nótt enda sprengjan mun öflugri en fyrri sprengjur.

Trump segir að Suður-Kórea sé að upplifa það sem hann hafi sagt að það þýði ekki að ræða við Norður-Kóreu með friðsamlegum hætti. Þeir skilji aðeins eitt. Norður-Kórea sé óvinveitt þjóð sem sé alvarleg ógn sem sé Kína til skammar því Kínverjar reyni að aðstoða þá með litlum árangri.Í fréttaskýringu Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu í gær er fjallað um hættuna á átökum á Kóreuskaga. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, sagði á föstudag að mikil hætta væri á átökum á Kóreuskaga og hvatti til viðræðna við einræðisstjórnina í Norður-Kóreu til að reyna að fá hana til að hætta smíði eldflauga og kjarnavopna.

Pútín sagði að Bandaríkin, Norður-Kórea og grannríkin í Asíu þyrftu að hefja viðræður án skilyrða og það væri eina leiðin til að leysa deiluna. „Hótanir, þrýstingur og móðgandi og herskátt orðagjálfur leiðir til einskis,“ sagði forsetinn og bætti við að tilraunir til að auka þrýstinginn á Norður-Kóreu væru „rangar og gagnslausar“. Hann hvatti ríkin til að samþykkja tillögu Rússa og Kínverja um að N-Kóreumenn hættu eldflauga- og kjarnorkutilraunum sínum og Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn hættu sameiginlegum heræfingum sínum við landamæri Kóreuríkjanna til að greiða fyrir viðræðunum.

Áður höfðu stjórnvöld í Kína hvatt til samningaviðræðna um deiluna á sömu forsendum.

 Vilja harðari refsiaðgerðir

Skilaboðin frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum um möguleikann á viðræðum við Norður-Kóreustjórn hafa verið misvísandi. Donald Trump forseti hefur sagt að allir kostir komi til greina, meðal annars beiting hervalds til að koma í veg fyrir að Norður-Kóreumenn eignist kjarnorkueldflaugar sem hægt væri að skjóta á Bandaríkin. Trump tísti á Twitter á miðvikudaginn var að viðræður við Norður-Kóreumenn væru „ekki svarið“ og benti á að samningaleiðin hefði ekki gefið góða raun í samskiptunum við þá síðustu 25 árin. Nokkrum klukkustundum síðar sagði varnarmálaráðherra hans, Jim Mattis, að Bandaríkjastjórn útilokaði ekki „diplómatískar lausnir“ í deilunni við Norður-Kóreu.

 Stjórnmálaskýrendur greinir á um hvort hægt sé að leysa deiluna með samningum. Sumir þeirra telja að samningaleiðin sé ekki enn fullreynd en aðrir eru á öndverðum meiði. Margir telja að stefna forvera Trumps í forsetaembættinu hafi brugðist og það sé orðið löngu tímabært að herða refsiaðgerðirnar gegn einræðisstjórninni í Pjongjang. Bruce Klingner, sérfræðingur í málefnum Kóreuríkjanna við hugveituna The Heritage Foundation, segir að Bandaríkjamenn þurfi að grípa til harðari refsiaðgerða gegn Norður-Kóreustjórn en gert var gegn klerkastjórninni í Íran áður en samið var við hana í deilunni um kjarnorkuáætlun landsins. Staðreyndin sé sú að Norður-Kóreustjórn hafi verið sýnd meiri linkind en Írönum.

Annar Kóreusérfræðingur í Bandaríkjunum, Sung-Yoon Lee, segir að Bandaríkjamenn þurfi að framfylgja þeim viðskiptaþvingunum sem þegar hafa verið samþykktar gegn Norður-Kóreustjórn. Framganga forvera Trumps í málinu hafi einkennst af undanlátssemi sem lýsi sér í því að þeir hafi mildað refsiaðgerðirnar of snemma.

 Stefna Trumps of óljós

Adam Mount, sérfræðingur í málefnum N-Kóreu við hugveituna Center for American Progress, segir að Trump þurfi að móta skýrari og kröftugri stefnu í málinu. Sumar yfirlýsingar hans hafi verið of óljósar, t.a.m. viðvörun hans um að hann myndi refsa Norður-Kóreustjórn með „eldi og ofsabræði, sem heimurinn hefur aldrei séð áður“, héldi hún áfram að hafa í hótunum við Bandaríkin.

 Annar N-Kóreusérfræðingur vestra, Bruce Bennett, telur að Bandaríkjastjórn þurfi að „endurheimta trúverðugleika sinn“ með takmörkuðum hernaðaraðgerðum, sem sendi Norður-Kóreustjórn skýr skilaboð en valdi ekki of mikilli hættu á að átök blossi upp, t.a.m. með því að senda stýriflaugar yfir Pjongjang.

 Óttast kjarnorkustríð

Jeffrey Lewis, bandarískur sérfræðingur í baráttunni gegn útbreiðslu gereyðingarvopna, segir að ljóst sé að Norður-Kóreustjórn eigi nú þegar kjarnavopn og mjög hættulegt væri að reyna að eyða þeim með loftárásum. „Árásir á þá eftir að þeir hafa eignast kjarnavopn væru ekki fyrirbyggjandi stríð. Það væri einfaldlega kjarnorkustríð,“ hefur fréttavefur

 CNN 

eftir Lewis.

Robert Kelly, prófessor í stjórnmálafræði í Suður-Kóreu, hefur ekki trú á að refsiaðgerðir dugi gegn einræðisstjórninni. „Í rauninni er ekki til neinn góður kostur,“ segir hann. „Væri hann til værum við ekki að tala um þetta með nokkurra mánaða millibili. Enginn veit hvað gera á í Norður-Kóreumálinu.“

mbl.is
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH & NORWEGIAN f. foreigners - ÍSLENSKA f. útlendinga - ENSKA f. fullorðna - NORSKA
START/BYRJA: 2018: 5/3, 2/4, 30/4, 28/5, 25/6, 23/7, 3/9, 1/10, 29/10, 26/11: ...
Dekk til sölu
2 stk 195x55x15 lítið slitin snjó eða heilsársdekk til sölu ...
Egat Diva - Snyrti-Nuddbekkur,Rafmagns fyrir Snyrti,Fótaaðgerða,spa....
Egat Diva - Rafmagns snyrti-/nuddbekkur, Vatnshelt áklæði, svartir og beige ...
Bækur til sölu
Bækur til sölu Menntamál 1.-42. árg. ib., Saga alþingis 1-5, Náttúrufræðing-urin...
 
Aðalfundur ramma hf. aðalfundur ra
Fundir - mannfagnaðir
Aðalfundur Ramma hf. ...
Framhald uppboðs
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Breyting á deiliskipulagi í flatey
Leikskólakennsla
Breyting á deiliskipulagi í Flat...
L helgafell 6018022119 vi
Félagsstarf
? HELGAFELL 6018011019 VI Mynd af au...