Hvöttu fréttamann til að gera árás í London

Tæknideild lögreglu rannsakar svæðið milli London Bridge og Borough Market …
Tæknideild lögreglu rannsakar svæðið milli London Bridge og Borough Market þar sem árásin átti sér stað. Átta létust og tugir slösuðust í árásinni á London Bridge og Borough markaðinn í sumar. AFP

Útsendari hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams reyndu að fá einn af fréttamönnum BBC, sem var á störfum á laun, til að starfa fyrir sig. Guardian segir fréttamanninn, sem vinnur fyrir fréttaskýringaþáttinn Inside Out, hafa verið hvattan til gera árás á London Bridge, ári áður en hryðjuverkaárás var gerð á brúnna nú í sumar.

Fjallað er um málið í fréttaskýringu Inside Out sem segir útsendarann hafa hvatt fréttamanninn til að gera árás á brúnna og stakk upp á að hann gerði það einn, eða í hóp með öðrum. Átta létust og tugir slösuðust í árásinni á London Bridge og Borough markaðinn í sumar.

Útsendarinn sýndi honum einnig ítarlegt kennsluefni fyrir hryðjuverk á dulnetinu, og segir BBC árásina í sumar hafa hafa líkst um margt kennsluefninu sem Hussein var sýnt. Árásarmennirnir Khuram Butt, Rachid Redouane og Youssef Zaghba voru skotnir af lögreglu á vettvangi.

Í fréttaskýringaþættinum segir að fréttamaðurinn hafi í tvö ár starfað á laun við að ná tengslum við vígamanninn Junaid Hussain, sem er frá Birmingham.

Ræddust þeir við í gegnum dulkóðaða skilaboðasíðu og sagði Hussain þar að hann gæti kennt fréttamanninum að búa til sprengjur heima.

Þegar Hussain féll í sýrlensku borginni Raqqa árið 2015 eftir drónaárás Bandaríkjahers hafði annar útsendari samband við fréttamanninn til að halda samræðum þeirra áfram. Lýsti hann ráðagerð þar sem lögreglumaður væri myrtur og hvernig mætti nálgast skotvopn og byssur.

„Við komumst að því í júlí 2016 að hryðjuverkasamtök voru að leita á Twitter og Facebook að breskum múslimum til að standa að árásum á fyrirfram gefna staði í London,“ sagði í umfjöllun Inside Out.

Breska lögreglan hafi verið látin vita af málinu og tengslum fréttamannsins við samtökin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert