Langsóttar en mögulegar lausnir

Afstaða stjórnvalda í Kína mun ráða úrslitum um það hvernig …
Afstaða stjórnvalda í Kína mun ráða úrslitum um það hvernig spilast úr málefnum Norður-Kóreu næstu misseri. AFP

„Norður-Kórea hefur búið við fordæmalausa sálræna stjórnun, króníska efnahagslega erfiðleika og einangrun í 60 ár,“ skrifar Justin Bronk, sérfræðingur við The Royal United Services Institute, um ástandið í hinu einangraða alræðisríki í grein fyrir BBC.

Hann segir samlögun Austur-Þýskalands í kjölfar Kalda stríðsins barnaleik í samanburði við uppbyggingu Norður-Kóreu í kjölfar mögulegrar innrásar og sameiningar Kóreuríkjanna, sem er einn fjarlægra möguleika sem menn velta nú fyrir sér í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin.

Í grein sinni fyrir BBC fer Bronk yfir þá hernaðarlegu valkosti sem Bandaríkjamenn standa frammi fyrir ef þeir ákveða að grípa til slíkra aðgerða vegna ítrekaðra ógnana af hálfu Norður-Kóreu.

Einn möguleiki sé að styrkja heraflann í Suður-Kóreu en þarlend stjórnvöld óttist að það myndi verða til þess að storka hinum óútreiknanlega nágranna. Undir þetta tekur Bronk og segir líklegt að Norður-Kóreumenn myndu líta á slíkar æfingar sem aðdraganda að innrás og þá myndu Rússar og Kínverjar líklega hreyfa við andmælum.

Annar valkostur í stöðunni sé að gera loftárásir á valin skotmörk í Norður-Kóreu, s.s. staði þar sem unnið er að kjarnorku- og eldflaugaáætlunum landsins. Vandamálið sé hins vegar að varnarnet norðurkóreska hersins sé þétt og hafi verið breytt og uppfært þannig að lítið sé vitað um viðbragðsgetu þess, t.d. gegn herþotum.

Þá myndu ráðamenn Norður-Kóreu án efa grípa til harðra refsiaðgerða gegn nágrönnum sínum til suðurs og valda ómældum skaða á þéttbýlum svæðum á borð við Seúl, áður en bandamönnum tækist að slá andstæðing sinn úrslitahögginu.

Þriðja valkostinn segir Bronk allsherjarinnrás. Sá möguleiki sé þó langsóttur. Fyrirætlanir Bandaríkjamanna yrðu löngu ljósar áður en til aðgerða kæmi, þar sem undirbúningurinn myndi fela í sér miklar hrókeringar á herafla. Hundruðir þúsunda myndu falla í valinn, beggja megin.

Frá heræfingu í Seúl í dag. Það er óhætt að …
Frá heræfingu í Seúl í dag. Það er óhætt að segja að nágrannar Norður-Kóreu séu á tánum eftir ítrekaðar storkanir síðustu vikur og mánuði. AFP

Kínverska spurningin

Þegar Bandaríkjamenn og bandamenn sóttu inn í Norður-Kóreu í Kóreustríðinu kom Kína norðrinu til varna til að koma í veg fyrir sameiningu Kóreuríkjanna undir forystu vesturveldanna.

Í yfirstandandi deilum hafa Kínverjar látið lítið til sín taka nema fordæma storkandi tilburði hins einangraða bandamanns síns Kim Jong-un og hvetja Bandaríkin, Suður-Kóreu og Japan til að sýna yfirvegun.

Kína hefur beinna hagsmuna að gæta; þarlendum stjórnvöldum hugnast ekki ófriður nærri landamærum sínum né vilja þeir eiga á hættu að tapa áhrifum á svæðinu. Á annan bóginn sjá Kínverjar hag sinn í því að leyfa galgopanum í Hvíta húsinu að gefa út innihaldslausar hótanir og yfirlýsingar á Twitter, sem draga úr trúverðugleika Bandaríkjanna, en á hinn bóginn má ætla að óútreiknanleiki Bandaríkjaforseta haldi þeim og öðrum aðilum málsins á tánum.

Todd M. Rosenblum, sem átti aðkomu að fjögurra ríkja viðræðunum um málefni Norður-Kóreu fyrir aldamót og var embættismaður hjá varnarmála- og heimavarnarráðuneytum Bandaríkjanna í valdatíð Barack Obama, er meðal þeirra sem hefur ljáð máls á þeim möguleika að Kína „heimili“ sameiningu Kóreuríkjanna, gegn því að Bandaríkjamenn yfirgefi Suður-Kóreu.

Í grein á vefnum Politico segir Rosenblum að á meðan Norður-Kórea njóti stuðnings Kína séu aðeins tveir vondir valkostir í stöðunni fyrir Bandaríkjamenn; að hefja blóðugt stríð eða lifa með kjarnorkuveldinu Norður-Kóreu, með getu til að ráðast gegn Washington-borg.

Rosenblum segir Bandaríkjamenn hafa reynt að hvetja stjórnvöld í Peking til aðgerða í aldarfjórðung, án árangurs. Þeir standi nú frammi fyrir erfiðum spurningum um það hverju þeir séu tilbúnir til að fórna til þess að fá Kína til að hverfa frá stuðningi sínum við hinn viðskotailla bandamann.

Kínverjar væru mögulega reiðubúnir til þess að hverfa frá stuðningi við Kim-veldið og greiða fyrir sameiningu Norður- og Suður-Kóreu gegn því að 30.000 manna herafli Bandaríkjanna hyrfi frá Suður-Kóreu og öllum herstöðvum yrði lokað.

Sjötta kjarnorkutilraun Norður-Kóreu átti sér stað á sama tíma og …
Sjötta kjarnorkutilraun Norður-Kóreu átti sér stað á sama tíma og Xi Jinping Kínaforseti tók á móti leiðtogum Brics-ríkjanna. F.v.: Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, Vladimir Pútín, forseti Rússlands, Xi Jinping og eiginkona hans Peng Liyuan. AFP

Vandkvæðum háð

Bandaríkin og Kína þyrftu að koma sér saman um að leggja Suður-Kóreu til verulegan stuðning til að samlaga þær 25 milljónir Norður-Kóreumanna sem búið hafa við fátækt og verulega takmarkað upplýsingaflæði, segir Rosenblum.

Hvað Bandaríkjamenn varðar sé hættan sú að sameinuð Kórea yrði hliðhollari Kína en vesturveldunum og þá myndu sviptingarnar mögulega grafa undan bandalagi Bandaríkjanna, Suður-Kóreu og Japan.

Rosenblum segir einnig hætt við því að þessi þróun máli myndi verða til þess að herða Kínverja í útþenslustefnu sinni og þá séu allar líkur á því að viðræður í þessa átt myndu vekja hörð viðbrögð í Norður-Kóreu, þar sem stjórnvöld myndu gera allt til þess að berjast fyrir tilvist sinni.

Norðurkóresku spurningunni yrði hins vegar svarað fyrir fullt og allt.

Líkt og fyrr segir verður þessi mögulega atburðaráðs að teljast langsóttur möguleiki en staðreyndin er sú að líkt og Bandaríkin, Suður-Kórea og Japan, eiga Kínverjar fáa kosti í stöðunni.

Þeir geta ekki staðið aðgerðalausir hjá til eilífðarnóns þegar ögranir Kim Jong-un beinast óhjákvæmilega gegn þeim líkt og öðrum, er hann kýs ítrekað að hunsa viðvaranir þeirra. Þá hafa menn leitt líkur að því að stjórnvöldum í Peking sé ekki skemmt eftir sjöttu kjarnorkutilraun Norður-Kóreumanna um helgina, sem átti sér stað á sama tíma og árleg ráðstefna Brics-ríkjanna í Kína.

Zhao Tong, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu við Carnegie-Tsinghua Center for Global Policy í Peking, segir viðskiptaþvinganir fýsilegasta kostinn í stöðunni. Einn möguleiki væri að stöðva olíuflutninga til landsins en þrátt fyrir að hugmyndir þess efnis njóti meiri stuðnings nú en áður séu uppi efasemdir. Menn telji t.d. að gamlar olíuleiðslurnar myndu eyðileggjast ónotaðar, segir hann við Guardian.

Steve Tsang, framkvæmdastjóri Soas China Institute, segir Xi Jinping Kínaforseta hins vegar fyrst og fremst horfa til Kim Jong-un sem ergelsis, svo lengi sem Kína stendur ekki bein ógn af honum. Óþekkta stærðin í jöfnunni sé Donald Trump Bandaríkjaforseti.

„Vandamálið er að einhver á borð við Trump hegðar sér ekki endilega eins og venjulegir Obama eða Clinton-ar heimsins og þar af leiðandi er hættan á því að hann hunsi faglega hernaðarlega ráðgjöf ekki óveruleg,“ segir Tsang.

Ólíklegt þykir að Kína greiði fyrir því að steypa Kim …
Ólíklegt þykir að Kína greiði fyrir því að steypa Kim Jong-un af stóli en það gæti „svarað“ norðurkóresku spurningunni fyrir fullt og allt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert