Langþráð markmið í höfn?

Kim Jong-un virðist óhræddur við að ögra alþjóðasamfélaginu, sem hefur …
Kim Jong-un virðist óhræddur við að ögra alþjóðasamfélaginu, sem hefur ítrekað fordæmt kjarnorkutilraunir Norður-Kóreu. AFP

Stjórnvöld í Suður-Kóreu telja víst að Norður-Kóreumönnum hafi tekist að framleiða kjarnorkuvopn af þeirri stærð sem koma má fyrir á langdrægri eldflaug. Frá þessu greindi varnarmálaráðherra landsins, Song Young-moo, á fundi með þingmönnum í dag.

„Norður-Kórea er orðin þess megnug að þurrka út stóran hluta hvaða stórborgar sem er,“ hefur Washington Post eftir Sue Mi Terry, fyrrum sérfræðing í málefnum Norður-Kóreu hjá bandarísku leyniþjónustunni CIA.

Ef í ljós komi að sprengjan sem Norður-Kóreumenn sprengdu um helgina hafi ekki verið vetnissprengja, eins og þeir hafa haldið fram, sé aðeins tímaspursmál hvenær þeim tekst að smíða slíka sprengju.

James M. Acton, eðlisfræðingur og sérfræðingur í kjarnorkumálum hjá Carnegie Endowment for International Peace, efast ekki um staðhæfingar ráðamanna í Pyongyang.

„Norður-Kórea hefur ýjað að því í nokkurn tíma að unnið væri að smíðum vetnissprengju, burtséð frá myndunum sem þeir birtu í gærkvöldi, því á þetta ekki að koma á óvart. En þetta markar umtalsverða tæknilega framþróun,“ segir hann.

Acton segir að gera verði ráð fyrir því að Norður-Kóreumenn búi nú yfir tækninni til að smíða kjarnorkusprengju sem passar á eldflaug.

Kjarnorkuvopnasérfræðingar segja vopnið sem sést á myndunum sem norðurkóresk stjórnvöld birtu í gær sannarlega líkjast vetnissprengju en henni svipi þó ekki til neinnar sprengju í vopnabúri Bandaríkjanna.

Sprengingin í gær var sjötta kjarnorkuvopnatilraun Norður-Kóreu en þrátt fyrir augljósar hindranir, s.s. efnahagsástandið í landinu og einangrun þess frá alþjóðasamfélaginu, segir Jeffrey Lewis, stofnandi bloggsíðunnar Arms Control Wonk, kjarnorkuáætlun landsins áþekka vegferð annarra kjarnorkuvelda.

„Ef þú horfir til Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Kína, þá voru þau öll nálægt því að eignast varmakjarnavopn þegar þau framkvæmdu fimmtu kjarnorkutilraunina sína,“ segir hann. Engin ástæða sé til að ætla að Norður-Kórea sé undantekning.

Tilraunaskot úr eldflaugakerfi Suður-Kóreu. Nágrannar Norður-Kóreu setja sig nú í …
Tilraunaskot úr eldflaugakerfi Suður-Kóreu. Nágrannar Norður-Kóreu setja sig nú í stellingar og búa sig undir hvað sem koma skal. AFP

Tíu ára tilraunir

Fyrsta tilraun Norður-Kóreumanna með kjarnorkuvopn var framkvæmd í október árið 2006, í valdatíð Kim Jong-il. Sprengingin átti sér stað neðanjarðar á tilraunasvæðinu Punggye-ri, líkt og aðrar tilraunir sem fylgt hafa í kjölfarið.

Töldu sérfræðingar að kraftur þessarar fyrstu sprengju hefði verið um það bil eitt kílótonn.

Önnur tilraunin fór fram í maí 2009 og var kraftur sprengjunnar sem þá var sprengd áætlaður tvö til átta kílótonn. Í febrúar 2013 tilkynntu stjórnvöld í Pyongyang svo að þriðja kjarnorkutilraun landsins hefði átt sér stað en um væri að ræða minni og léttari sprengju en áður og mun kraftmeiri.

Í kjölfar þeirrar tilraunar veltu menn því fyrir sér hvort notast hefði verið við úran í stað plútons og spurningar vöknuðu um mögulega úranaugðun í landinu.

Árið 2016 lýstu ráðamenn því yfir að þeir hefðu gert vel heppnaða tilraun með vetnissprengju í fyrsta sinn en svokallaðar H-sprengjur byggja á samruna atóma í stað sundrunar og eru mun kraftmeiri en hefðbundar kjarnorkusprengjur. 

Staðhæfingin fékkst aldrei staðfest né heldur fullyrðingar Kim Jong-un um að stjórnvöldum hefði tekist að smíða kjarnorkusprengju sem passaði á eldflaug.

Tilkynnt var um fimmtu tilraunina í september 2016. Kraftur umræddrar sprengju var talinn hafa verið um 10-20 kílótonn en til samanburðar nam kraftur sprengjunnar sem Bandaríkjamenn vörpuðu á Hiroshima árið 1945 um 15 kílótonnum.

Í dag er svo komið að stjórnvöld í Norður-Kóreu virðast hafa náð stórum áfanga; tekist að smíða langdræga eldflaug sem dregur til Bandaríkjanna og sömuleiðis að smíða kjarnorkusprengju á slíka eldflaug.

Upp er komin erfið staða; geta Norður-Kóreumanna til að valda óvinum sínum og nágrönnum fjörtjóni virðist öskra á viðbrögð en vegna þess eyðileggingarmáttar sem ríkið býr yfir eru fýsilegir valkostir fáir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert