Má neita að baka „hinsegin“ tertur?

Brúðkaupstertur.
Brúðkaupstertur. Wikipedia/Tom Harpel

Hæstiréttur Bandaríkjanna mun í haust taka fyrir mál kökuskreytingarmeistara sem dómstóll í Colorado bannaði að mismuna gegn samkynhneigðum pörum með því að neita að skreyta fyrir þau brúðkaupstertur.

Jack Phillips er eigandi fyrirtækisins Masterpiece Cakeshop. Hann telur sig hafa rétt til þess að neita samkynja pörum um þjónustu á grundvelli trúar sinnar, sem gerir aðeins ráð fyrir að maður og kona geti gengið í hjónaband.

Málið snýst ekki um lögleiðingu hjónabands samkynja para en mun öðrum þræði snúast um túlkun dóms hæstaréttar í málinu Obergefell gegn Hodges, sem greiddi fyrir þeirri löggjöf.

William Baude, prófessor við Chicago Law School, segir dómstólinn m.a. munu svara því hvort dómurinn í Obergefell gegn Hodges var lokaorðið í umræðunni um hjónabönd samkynja para, eða hvort ákveðnum spurningum sé enn ósvarað.

Í séráliti sínu í máli Obergefell gegn Hodges sagði hæstaréttardómarinn John Roberts að erfiðar spurninga vöknuðu í þeim tilvikum þegar trúariðkun fólks gengi í berhögg við hinn nýtilkomna rétt samkynja para til að ganga í hjónaband.

Á þetta reyndi áður en dómur féll í fyrrnefndu máli, þegar David Mullins og Charlie Craig leituðu til Phillips árið 2012, og báðu hann um tertu til að fagna brúðkaupi sínu.

Hjónabönd samkynja para voru á þeim tíma ekki lögleg í Colorado en parið hugðist ganga í það heilaga í öðru ríki.

Að sögn Phillips vissi hann strax að hann gæti ekki orðið við ósk parsins án þess að brjóta gegn trú sinni. „Í Biblíunni segir að í upphafi voru karl og kona,“ hefur CNN eftir Phillips.

Þess ber að geta að ýmis önnur þjónusta er ekki á boðstólnum hjá Masterpiece Cakeshop vegna trúar Phillips, t.d. framleiðir fyrirtækið ekki kökur fyrir Hrekkjavökuna.

Dómstóllinn í Colorado komst að þeirri niðurstöðu að lög gegn mismunun gerðu ekki ráð fyrir að fólk gæti mismunað öðrum á grundvelli trúar sinnar og bannaði Phillips að mismuna viðskiptavinum sínum á grundvelli kynhneigðar.

Lögmaður Mullins og Craig segir mikið í húfi, ekki bara fyrir hinsegin fólk. Það sem Phillips sé að sækja sé stjórnarskrárvarinn réttur til að mismuna fólki.

Bakarinn segir málið hins vegar snúast um listrænt frelsi sitt; hann hafi ekki neitað parinu um kökuna vegna kynhneigðar mannanna heldur vegna þeirra skilaboða sem kakan myndi senda.

„Samkynhneigðir menn eru alltaf, alltaf, alltaf velkomnir í verslun minni, þetta kemur kynhneigð þeirra ekkert við,“ segir hann. „Það eru bara viðburðir sem ég get ekki búið til köku fyrir. Ég get ekki búið til kökur til að fagna viðburðum sem ganga gegn trú minni.“

Ítarlega frétt um málið má finna hjá CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert