Trump er „ekki brúður mín“ segir Pútín

Pútín og Trump takast í hendur á hliðarlínum G20-fundarins sem …
Pútín og Trump takast í hendur á hliðarlínum G20-fundarins sem fór fram í Hamborg í Þýskalandi í júlí sl. AFP

Donald Trump er „ekki brúður mín og ég er ekki brúðgumi hans,“ sagði Vladimir Pútín Rússlandsforseti í dag, þegar hann var spurður að því á blaðamannafundi hvort Bandaríkjaforsetinn hefði valdið honum vonbrigðum.

Sagði hann spurninguna „barnalega“.

Á blaðamannafundinum var Pútín einnig spurður að því hvernig hann myndi bregðast við ef Trump yrði ákærður fyrir embættisglöp (e. impeached). Svaraði hann þá að það væri algjörlega óviðeigandi fyrir Rússa að tjá sig um bandarísk innanríkismál.

Rússneskir embættismenn fögnuðu mjög þegar Trump sigraði Hillary Clinton í forsetakosningunum vestanhafs og lofaði Pútín hann m.a. fyrir að vilja bæta samskiptin við Rússland.

Síðan hefur nokkuð vatn runnið til sjávar og Bandaríkjamenn m.a. hert viðskiptaþvinganir gegn Rússum og lokað ræðismannaskrifstofu í landinu.

Pútín segist áskilja sér réttinn til að takmarka enn frekar fjölda bandaríska diplómata í Rússlandi en segist vilja bíða og sjá hvernig mál þróast.

Guardian sagði frá. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert