Wall fékk lúgu í höfuðið, segir Madsen

Peter Madsen sést hér ræða við lögreglumenn í ágúst.
Peter Madsen sést hér ræða við lögreglumenn í ágúst. AFP

Peter Madsen, sem grunaður er um að hafa ráðið blaðamanninum Kim Wall bana 10. ágúst sl., segist hafa verið í sjálfsvígssturlun þegar hann ákvað að sökkva kafbátnum Nautilus eftir að Wall lést af slysförum um borð.

Madsen svaraði spurningum fyrir dómstól í dag, þar sem ákæruvaldið fór m.a. fram á að hann gengist undir geðmat. Sagði hann Wall hafa látist þegar 70 kg lúga lenti á höfði hennar en neitaði alfarið að hafa vitneskju um það hvers vegna líkamsleifar blaðamannsins hefðu bútast í sundur.

Búkur Wall fannst í fjöru við Amager 22. ágúst. Á hann vantaði höfuðið, hendurnar og fæturna.

Saksóknarinn í málinu gegn Madsen, sem hefur verið ákærður fyrir manndráp og fyrir að hafa sundurlimað líkamsleifar Wall, fór fram á það í dag að fyrirtaka málsins færi fram fyrir luktum dyrum. Sagði hann rannsókn málsins skammt á veg komna og þá hefði Madsen ítrekað breytt framburði sínum eftir því sem honum bærust upplýsingar af málinu.

Þessu mótmælti verjandi ákærða og sagði hann eiga rétt á því að tjá sig fyrir opnum tjöldum. Þá andmæltu fjölmiðlamenn því að vera vísað út. Eftir nokkurra mínútna íhugum ákvað dómarinn að hafna beiðni ákæruvaldsins.

Saksóknarinn byrjaði á því að lesa upp vitnisburð Madsen, sem sagðist hafa orðið við bón Wall um ferð um borð í Nautilus en hann hafði áður samþykkt að veita henni viðtal. Sagði hann viðtalið hafa átt sér stað á meðan þau sigldu um.

Margir hefðu orðið varir ferða þeirra en um kl. 20 hefðu þau kafað og komið upp aftur um kl. 22. Þau hefðu ákveðið að fara upp úr bátnum og hann farið á undan en honum hefði skrikað fótur þegar hann ætlaði að halda lúgunni opinni fyrir Wall og lúgan lent á höfði blaðamannsins.

Madsen sagðist hafa heyrt dynk en þegar hann opnaði lúguna aftur hefði hann aðeins séð glitta í fætur Wall. Hún hefði reynst illa særð og blætt úr höfði hennar. Wall hefði síðan fengið krampakast sem stóð í um 20 sekúndur og látist í kjölfarið.

Sagðist Madsen hafa orðið þess var að hún hefði verið höfuðkúpubrotin.

Madsen sagðist hafa fengið sjokk; hann hefði ekki haft samband við neinn þar sem það hefði engu breytt. Sagðist hann hafa ákveðið að fremja sjálfsvíg og siglt aftur út. Hann hefði tekið sér nokkra stund til að íhuga málin, ákveðið að sökkva kafbátnum en verið bjargað.

Mynd af Peter Madsen og Kim Wall um borð í …
Mynd af Peter Madsen og Kim Wall um borð í Nautilus rétt eftir að þau lögðu úr höfn. AFP

Spurður um kynlífsvenjur sínar

Saksóknarinn spurði Madsen um kynlífsvenjur sínar, m.a. hvort hann hefði stundað kynlíf um borð í kafbátnum. Játti ákærði því að hafa gert það með konu sinni en hann hefur neitað að hafa átt kynmök við Wall.

Þá sagðist hann aðspurður hafa stundað svokallað S- og M-kynlíf fyrir nokkrum árum. Þá hefði hann einu sinni stundað kvalalostakynlíf, í hlutverkaleik með hjákonu sinni, en hann og eiginkona hans væru í opnu sambandi.

Viðurkenndi Madsen að hafa verið undir álagi á þeim tíma sem hann fór ferðina með Wall.

Madsen sagðist ekkert vita um það hvernig það kom til að lík Wall var sundurlimað en viðurkenndi að hafa þyngt líkið til að sökkva því. Spurði saksóknarinn hver hefði sundurlimað líkið ef ekki hann en Madsen sagðist ekkert svar eiga við því.

Ákærði játaði að hafa haft sög um borð í kafbátnum en hún hefði ekki verið með þegar hann og Wall lögðu frá landi. Sögin hefði þá hangið á verkstæði hans. Það er ekki rétt, sagði saksóknarinn.

Spurður að því hvers vegna hann greindi lögreglu ekki frá því að Wall væri látin þegar hann var handtekinn bar Madsen því við að hafa ekki hugsað rökrétt; virtist það t.d. rökrétt að taka kafbátinn út til að fremja sjálfsmorð, spurði hann saksóknarann til baka.

Saksóknarinn neitaði að svara og sagði Madsen þann sem ætti erfitt með að útskýra mál sitt.

Madsen sagðist hafa verið haldinn sjálfsvígssturlun í kjölfar dauða Wall. Hann hefði sökkt kafbátnum þar sem hann taldi að hann yrði ekki notaður meira. Ekki hefði verið um að ræða tilraun til að leyna einu né neinu.

Þá sagði hann Rocket-Madsen hafa dáið með Wall.

Fram kom í dómsal að lögregla hefði fundið svartar kvenbuxur og sokkabuxur í vélarrými kafbátsins. Madsen hefði sagt klæðin hafa farið af Kim þegar hann varpaði henni í sjóinn. 

Dómarinn ákvað að niðurstöður bráðabirgðakrufningar yrðu ekki gerðar opinberar.

Fréttin er unnin upp úr beinni lýsingu Berlingske úr dómsal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert