Gætu ekki sagt nei við Breta

AFP

Stjórnvöld í Noregi vilja ekki að Bretar verði aðilar að EES-samningnum í gegnum Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) eftir að þeir yfirgefa Evrópusambandið.

Þetta kemur fram á fréttavef norska dagblaðsins Aftenposten. Hins vegar hefur blaðið eftir ónafngreindum heimildarmanni í norska utanríkisráðuneytinu að norskir ráðamenn sjái sér hins vegar ekki fært að standa í vegi fyrir aðild Breta að samningnum ef þeir sæktust eftir því. Ástæðan er sú að of stutt sé liðið frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar.

Þjóðverjar hernámu Noreg í styrjöldinni og áttu Bretar ríkan þátt í því að sigra Þýskaland og frelsa Norðmenn og fleiri Evrópuþjóðir undan oki þýskra nasista. Norðmenn telja sig því eiga Bretum mikið að þakka. Norskir ráðamenn óttast hins vegar að Bretar yrðu of fyrirferðamiklir innan EFTA og EES og að forystuhlutverk Noregs yrði þannig fyrir bí.

Leiðtogi norska Miðflokksins, Trygve Slagsvold Vedum, segist hins vegar í samtali við Aftenposten mjög hlynntur því að Bretland gangi í EFTA sækist landið eftir því. Haft er eftir Ulf Sverdrup, framkvæmdastjóra norsku hugveitunnar NUPI, að forsenda umræðu um mögulega aðild Breta að EFTA sé að þeir sækist eftir henni. Það hafi þeir ekki gert enn.

Þingkosningar verða í Noregi á mánudaginn og óvíst er hvort núverandi minnihlutastjórn Hægriflokksins og Framfaraflokksins með stuðningi Frjálslynda flokksins og Kristlega þjóðarflokksins verði áfram við völd. Fari svo að vinstristjórn taki við völdum er ljóst að Miðflokkurinn mun annað hvort eiga aðild að henni eða verja hana falli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert