Hæfðu efnavopnaframleiðslu

AFP

Ísraelskar herþotur hæfðu herstöð sýrlenska hersins í vesturhluta Sýrlands í nótt. Fréttir hafa borist um að meðal annars hafi ísraelski herinn skotið niður efnavopnaframleiðslu sýrlenskra stjórnvalda. 

Í tilkynningu frá Sýrlandsher kemur fram að eldflaugar sem skotið var úr lofthelgi Líbanon hafi hæft herstöð skammt frá Masyaf og að tveir hermenn hafi látist í loftárásinni.

Óstaðfestar fréttir arabískra fjölmiðla herma að meðal annars hafi verið gerð loftárás á efnavopnaverksmiðju stjórnvalda í Sýrlandi. Ísraelski herinn hefur ítrekað gert loftárásir á leynilegar vopnaverksmiðjur sýrlenskra yfirvalda en herinn hefur ekki staðfest árásina í nótt. 

Í gær greindi rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna frá því að fullvíst sé að sýrlensk stjórnvöld hafi staðið á bak við efnavopnaárás á þorp í landinu sem er undir stjórn uppreisnarmanna. 

Alls létust 83 í árásinni á Khan Sheikhoun 4. apríl. Yfirvöld í Damaskus neita því að hafa borið ábyrgð á árásinni líkt og þau hafa gert þegar aðrar slíkar árásir hafa verið gerðar á íbúa landsins.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert