Að minnsta kosti 58 látist

Lögreglumenn að störfum í Juchitan de Zaragoza í Oaxaca í …
Lögreglumenn að störfum í Juchitan de Zaragoza í Oaxaca í Mexíkó. AFP

Að minnsta kosti 58 eru látnir eftir öflugan jarðskjálfta sem mældist 8,1 stig í Mexíkó klukk­an 23.50 að staðar­tíma. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka en hún hefur hækkað jafnt og þétt í dag. Talið er að að minnsta kosti 50 milljónir manna hafi fundið fyrir skjálftanum. 

Í Oaxaca-héraði, sem liggur að sjó létust, að minnsta kosti 48, að sögn Alejandro Murat, ríkisstjóra. Borgin Juchitan í Oaxaca varð verst úti. 10 manns létust í Chiapas, þrír í Tabasco. Að minnsta kosti einn lést í Gvatemala. 

Frans páfi bað fyrir fórnarlömbum jarðskjálftans og fellibyljarins Irmu í fjöldamessu í Kólumbíu í dag. „Ég bið fyrir þeim sem létust og fjölskyldum þeirra,“ sagði páfinn og vísaði til íbúa í Mexíkó og sagðist einnig biðja fyrir öllum þeim sem fellibylurinn Irma hafi haft áhrif á. 

Fjöldi húsa hrundi til grunna

„Nokkur hús hrundu til grunna þar sem fólk var innilokað,“ sagði Luis Felipe Puente, stjórnandi björgunarstarfs, við sjónvarpsstöðina Milenio. Einnig hrundi hótel í borginni Juchitan, sömu sögu er að segja um ráðhúsið og mörg heimili eru mikið skemmd. 

Tvö börn létust í nágrenni Tabasco-héraðs, að sögn ríkisstjórans. Annað þeirra varð undir vegg sem hrundi og hitt barnið, ungbarn, lést þegar rafmagn fór af öndunarvél sem það var tengt við á spítala.  

Strax eftir skjálftann var gefin út flóðbylgju­viðvör­un fyr­ir Kyrra­hafs­strönd Mið-Am­er­íku og Ekvador en var dregin til baka í dag.  

Í fyrstu var skjálftinn sagður 8,2 stig en samkvæmt mælingum bandarískra vísindamanna mældist hann ögn minni eða 8,1 stig. Þetta er stærsti skjálfti sem hefur verið á svæðinu í öld. Árið 1985 var mannskæðasti jarðskjálfti Mexíkóborgar og létust þá yfir 10 þúsund manns.


 

Sensacion-hótelið hrundi í jarðskjálftanum.
Sensacion-hótelið hrundi í jarðskjálftanum. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert