Heyrðu í sírenum og biðu í dyrum

Mexíkóskir hermenn að störfum eftir skjálftann.
Mexíkóskir hermenn að störfum eftir skjálftann. AFP

Íslendingur sem er búsettur í Mexíkó segist ekki hafa orðið hræddur þegar jarðskjálftinn reið yfir þar í landi.

Ástæðan er sú að viðvörunarsírenur ómuðu um allt og náði hún því að bíða í opnum dyrum ásamt öðrum úr fjölskyldunni þar til skjálftinn gekk yfir.

Að minnsta kosti 58 eru látnir eftir skjálftann sem mældist 8,2 stig klukkan 23.50 að staðartíma.

Elín Emilsson Ingvarsdóttir býr í San Jerónimo sem er hluti af Mexíkóborg. Hún segir að ekki hafi mikil hætta verið á ferð í sínu hverfi vegna þess að það er staðsett í hrauni uppi á fjalli.

Elín Emilsson Ingvarsdóttir.
Elín Emilsson Ingvarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hún starfar sem yfirmaður tungumáladeildar í háskóla sem kennir uppeldisfræði, Universidad Pedagogica Nacional.

„Ég gat ekki annað en borið upplifunina saman við jarðskjálftann sem varð í Mexíkó árið 1985 þar sem fleiri hverfi og byggingar hrundu,“ segir Elín, sem hefur búið lengi í Mexíkó.

Hún bendir á að Mexíkóar hafi verið betur undirbúnir fyrir jarðskjálftann sem varð núna en skjálftarnir tveir voru álíka stórir.

Margar byggingar hrundu í skjálftanum fyrir um 30 árum vegna þess að ekki var farið eftir byggingareglum en það hefur breyst síðan þá. Einnig er komin sú tækni að sírenur fara í gang þrjátíu sekúndum áður en jarðskjálfti gengur yfir og því hefur fólk tíma til að bregðast við.

Fólk leitar í rústum bygginar sem hrundi í ríkinu Oaxaca.
Fólk leitar í rústum bygginar sem hrundi í ríkinu Oaxaca. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert