Irma lækkuð á fjórða stig

Fellibylurinn Irma er ekki lengur skilgreindur sem fimmta stigs fellibylur heldur fjórða stigs en er enn gríðarlega hættulegur, segir í tilkynningu frá bandarísku fellibyljamiðstöðinni. 

Irma er á leið til Flórída eftir að hafa farið sem stormsveipur yfir Karíbahafið. Vindhraði Irmu er nú 69 metrar á sekúndu eða 250 km á klukkustund. 

Að minnsta kosti fjórtán hafa látist og tjónið er gríðarlegt á eyjum í Karíbahafi. Forsætisráðherra Holland, Mark Rutte, segir að  búið sé að opna fyrir flugumferð Hollandsmegin á St Martin eyju en aðeins sé heimilt fyrir vélar með hjálpargögn að lenda þar. Gripdeild er alvarlegt vandamál á þessum hluta eyjunnar en hermenn eru að reyna að koma á röð og reglu að nýju.

„Ástandið er alvarlegt,“ segir hann þegar hann er spurður út í gripdeildir. Rutte segir að allt sé gert til þess að koma neyðaraðstoð til íbúa á eyjunni.

Skemmdir á eyjum sem eru undir yfirráðum Frakka í Karíbahafi eru taldar mun meiri en 200 milljónir evra, 25,4 milljarða króna, líkt og fyrst var áætlað. 

Bertrand Labilloy, framkvæmdastjóri frönsku endurtrygginganna, Caisse Centrale de Réassurance (CCR) sem sérhæfa sig í náttúruhamförum, sagði að yfirleitt yllu fellibylir tjóni á frönsku eyjunum upp á 100-200 milljónir evra. „En Irma er miklu öflugri. svo við eigum von á að fjárhæðin verði mun hærri en þetta,“ sagði hann í viðtali við CNews.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert