Irma ólmast á Turks og Caicos

Fellibylurinn Irma hamast nú á eyjunum Turks og Caicos sem eru suðaustur af Bahamas-eyjaklasanum. Irma hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar á Karíbahafi en að minnsta kosti 14 eru látnir.

Þetta er í fyrsta skipti sem íbúar á eyjunum tveimur, sem eru undir breskum yfirráðum, fá yfir sig fellibyl sem er á fimmta stigi kvarðans yfir styrk fellibylja. Vitað er um miklar skemmdir og flóð á Haítí en uppbyggingu þar er ekki enn lokið síðan í jarðskjálftanum 2010 þegar á annað hundrað þúsund létust.

Búið er að fyrirskipa hálfri milljón Flórídabúa að yfirgefa heimili sín áður en Irma kemur þar yfir á sunnudag. Aftur á móti hefur heldur dregið úr vindhraðanum og mælist Irma nú á 270 km hraða á klukkustund eða 74 metra á sekúndu.

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum hafa 1,2 milljónir manna orðið fyrir barðinu á Irmu hingað til en talið er að sú tala geti hækkað í 26 milljónir. Talin er hætta á að farsóttir geti geisað í kjölfar fellibyljarins þar sem drykkjarvatn hefur spillst og holræsakerfi gefið sig. 

Talið er að Irma fari til Kúbu áður en hún kemur yfir Flórída um helgina. Almannavarnastofnun Bandaríkjanna, FEMA, segir að búast megi við miklu tjóni á suðurströnd landsins þegar fellibylurinn komi þar að landi, líklega aðfaranótt sunnudags að staðartíma. „Meirihluti íbúa á ströndinni hefur aldrei lent í eins öflugum fellibyl,“ sagði yfirmaður FEMA, Brock Long, í viðtali við CNN.

Búist er við að þegar fellibylurinn kemur að landi í Flórída verði styrkur hans á fjórða stigi eins og fellibylurinn Harvey sem olli miklu tjóni í Texas fyrir tæpum tveimur vikum. Frá því að mælingar hófust hefur það aldrei gerst áður að tveir fjórða stigs fellibyljir komi að landi í Bandaríkjunum á sama fellibyljatímabili.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert