Madsen synjað um lausn

Peter Madsen.
Peter Madsen. AFP

Danskur áfrýjunardómstóll hafnaði í gær beiðni Peter Madsen, sem er sakaður um að hafa myrt sænska blaðamanninn, Kim Wall, um borð í kafbáti sínum, um að vera látinn laus úr haldi. Madsen var á þriðjudag úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 3. október.

Madsen er sakaður um að hafa drepið og aflimað Wall um borð í kafbátnum UC3 Nautilus en lík hennar fannst á reki í Køgeflóa við Kaupmannahöfn 21. ágúst. Tíu dögum áður hafi verið lýst eftir henni en síðast sást til hennar 10. ágúst er hún sigldi úr höfn í Kaupmannahöfn með Madsen.

Í niðurstöðu dómstólsins segir að miklar líkur séu á því að ef hann verði látinn laus geti það spillt fyrir rannsókninni.

Madsen hélt því fram í réttarsalnum á þriðjudag að Wall hafi látist þegar 70 kg þungur hleri hafi lent á höfði hennar og hann hafi felmtri sleginn varpað henni fyrir borð. Hann neitar því að hafa átt við líkið og að hafa aflimað Wall. Höfuð hennar, hendur og fætur hafa ekki fundist þrátt fyrir víðtæka leit.

Lögmaður Madsen, Betina Hald Engmark, segir í bréfi til áfrýjunardómstólsins að ekkert bendi til þess að skjólstæðingur hennar hafi framið morð af yfirlögðu ráði og að lögregla hafi ekki lagt fram fullnægjandi sönnur á að Madsen hafi aflimað Wall. Madsen hefur verið gert að sæta geðrannsókn.

Umfjöllun TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert