Skjálfti upp á rúm 8 stig í Mexíkó

Jarðskjálftinn mældist 8 stig.
Jarðskjálftinn mældist 8 stig. US Geological Survey

Jarðskjálfti sem mældist 8 stig reið yfir Suður-Mexíkó í nótt og fannst hann víða, meðal annars í Mexíkóborg. Upptök skjálftans voru neðansjávar, um 120 km suðvestur af bænum Tres Picos í Chiapas-ríki. Gefin hefur verið út flóðbylgjuviðvörun vegna skjálftans.

Vitað er um að fimm eru látnir en óttast er að sú tala eigi eftir að hækka.

Samkvæmt upplýsingum frá bandarísku jarðskjálftamiðstöðinni (US Geological Survey) er gert ráð fyrir flóðbylgjum sem eru meira en þrír metrar á hæð.

„Byggt á öllum fáanlegum gögnum... má búast við hættulegum flóðbylgjum á einhverjum strandlengjum,“ segir í tilkynningu frá miðstöð flóðbylgjuviðvarana (Pacific Tsunami Warning Center).

Líkur eru taldar á að flóðbylgjur, sem eru meira en þrír metrar á hæð, munu jafnvel skella á strönd Mexíkó. Viðvörunin gildir fyrir strandlengju Mexíkó, niður Mið-Ameríku til Gvatemala, El Salvador, Kosta Ríka,  Níkaragva, Panama og Hondúras allt suður til Ekvador.

Uppfært klukkan 6:58

Innanríkisráðneyti Mexíkó greindi frá því að skjálftinn hafi verið 8,4 stig en áður hafði bandaríska jarðskjálftamiðstöðin hækkað hann úr 8 stigum í 8,1 stig.

Þeir sem létust krömdust til bana þegar hús hrundu í Chiapas, samkvæmt uppýsingum frá starfsmönnum ríkisins og innanríkisráðherra Mexíkó, Miguel Angel Osorio Chong.

Eins og áður sagði fannst jarðskjálftinn víða en Mexíkóborg er í eitt þúsund km fjarlægð frá upptökum skjálftans. Svo vel fannst skjálftinn í höfuðborginni að fólk hljóp út á götur á náttfötunum einum saman.

Forseti Mexíkó, Enrique Peña Nieto, hefur fyrirskipað að skólahald verði fellt niður í Chiapas og Mexíkóborg í dag svo hægt verði að fara yfir byggingarnar og kanna hvort skemmdir hafi  orðið á þeim.

Nieto sagði á Twitter að hann fylgdist með gangi mála úr höfuðstöðvum almannavarna í landinu en jarðskjálftinn reið yfir skömmu fyrir miðnætti í Mexíkó, klukkan 5 að íslenskum tíma í morgun.

„Ég var að keyra þegar jörðin fór að hristast. Bíllinn kastaðist til!“ segir Cristian Rodriguez, sem er bílstjóri hjá Uber í Mexíkóborg.

„Við heyrðum sprengingu. Það var greinileg spennubreyting. Ljósastaurar hreyfðust til og frá,“ segir Mayaro Ortega, íbúi í höfuðborginni en hún er ein þeirra sem forðaði sér út á götu.

Þetta er harðasti jarðskjálftinn sem hefur riðið yfir Mexíkó síðan árið 1985 en þá létust 10 þúsund manns þegar jarðskjálfti upp á 8,1 reið yfir höfuðborgina. Síðan þá hefur mikið kapp verið lagt á að herða byggingareglugerðir og viðvörunarkerfi vegna jarðskjálfta bætt verulega. 

Fólk hljóp út á götur í Mexíkóborg vegna skjálftans.
Fólk hljóp út á götur í Mexíkóborg vegna skjálftans. AFP
Í miðborg Mexíkóborgar.
Í miðborg Mexíkóborgar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert