Amma fær að ganga með barnabarn

Dóttirin getur ekki gengið með barn vegna legslímuflakks.
Dóttirin getur ekki gengið með barn vegna legslímuflakks. Ljósmynd/Thinkstock

Portúgölsk stjórnvöld heimila að fimmtug portúgölsk amma gangi með barn dóttur sinnar. Dóttir hennar sem er 30 ára getur ekki gengið sjálf með barn vegna skurðaðgerðar sem hún fór í vegna endómetríósu eða legslímuflakks. 

Stjórn um staðgöngumæðrun samþykkti einróma umsókn mæðgnanna. „Þrátt fyrir að nokkur mál hafi verið lögð fyrir stjórnina var þetta eina málið sem var skoðað og samþykkt einróma.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórninni.

Læknaráð Portúgals hefur nú 60 daga til að veita samþykki sitt. Reiknað er fastlega með því að það muni veita leyfið.

Staðgöngumæðrun var leyfð í Portúgal árið 2016. Eingöngu þeim hjónum er veitt leyfi fyrir slíku ef konan getur af einhverjum læknisfræðilegum ástæðum ekki gegngið með barnið. Konan sem samþykkir að ganga með barnið og fæða það má ekki þiggja neinar greiðslur fyrir það, segir jafnframt í lögunum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert