„Kjósendur eiga lokaorðið“

Það var glatt á hjalla á kosningavöku Hægriflokksins á Radisson-hótelinu …
Það var glatt á hjalla á kosningavöku Hægriflokksins á Radisson-hótelinu í miðbæ Óslóar í kvöld. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Margt var um dýrðir á kosningavöku norska Hægriflokksins í Ósló í kvöld þegar fréttaritari mbl.is leit þar inn og öryggisgæsla gríðarleg. Ríkisstjórn Ernu Solberg heldur velli þvert á það sem talið var í sumar.

„Kjósendur eiga lokaorðið, við höfum unnið mjög mikið á síðustu vikurnar í kosningabaráttunni og hér eru það eingöngu verk okkar á kjörtímabilinu sem tala,“ sagði Ine Søreide varnarmálaráðherra í samtali við mbl.is á kosningavökunni. Hún sagði skoðanakannanir sumarsins vissulega ekki hafa gefið tilefni til bjartsýni í upphafi kosningabaráttunnar en flokkurinn hefði barist með kjafti og klóm í sumar og nú væri sú barátta að skila sér upp úr kjörkössunum.

„Auðvitað þori ég ekki að segja að við stöndum með pálmann í höndunum þegar upp er staðið í kvöld,“ sagði Søreide, „maður veit betur en að hrósa sigri eftir fyrstu tölur en óneitanlega líta þær vel út.“

Þetta síðasta var engum ofsögum sagt hjá varnarmálaráðherranum en rétt eftir viðtalið bárust allra nýjustu tölur frá atkvæðatalningu og ætlaði allt um koll að keyra í fagnaðarlátum í salnum.

„Þetta hefur tekið á“

„Jú, ég get sagt þér það að þetta hefur tekið á,“ sagði Sindre Finnes, eiginmaður Ernu Solberg forsætisráðherra, þegar blaðamaður náði tali af honum á vökunni. Kona hans hefur verið á stanslausu ferðalagi um allan Noreg síðustu vikurnar með það að augnamiði að afla flokki sínum fylgis og hljóta áframhaldandi umboð norskra kjósenda fram yfir hennar harðasta keppinaut, Jonas Gahr Støre, leiðtoga Verkamannaflokksins, sem virðist ekki ætla að hafa erindi sem erfiði í kosningunum 2017.

Sindre Finnes, eiginmaður Ernu Solberg forsætisráðherra.
Sindre Finnes, eiginmaður Ernu Solberg forsætisráðherra. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Hún hefur barist ötullega fyrir þeim málstað sem hún trúir á,“ sagði Finnes og viðurkenndi að hann hefði ekki séð mikið af eiginkonu sinni síðustu vikurnar en þannig væri það bara í kringum kosningar og lítið við því að gera. „Hún er dugnaðarforkur, þetta er það sem hún trúir á og ég styð hana auðvitað til allra góðra verka,“ sagði Finnes með skrollandi Ålesund-framburði en þau hjónin eiga bæði ættir að rekja til vesturstrandar Noregs, forsætisráðherrann til Bergen.

Mikil öryggisgæsla er á kosningavöku Hægriflokksins, vopnuð lögregla úti sem inni og öryggisverðir um alla fyrstu hæð hótelsins. Hverjum ráðherra á svæðinu fylgdu tveir óeinkennisklæddir lífverðir frá öryggisþjónustu lögreglunnar, PST, auk þess sem eiginmaður forsætisráðherra naut sömu gæslu og var fjölmiðlafólki ekki hleypt að honum nema að fengnu samþykki gæslunnar.

Þegar þetta er ritað er hægriblokkinni (Hægri, Framfaraflokknum, Kristilega þjóðarflokknum og Vinstri (Frjálslynda flokknum)) spáð 89 þingsætum en Støre og vinstriblokkinni (Verkamannaflokknum, Miðflokknum, Sósíalíska vinstriflokknum, Græningjum og Rauðu) 80 sætum sem yrði að teljast stórsigur ríkisstjórnar Ernu Solberg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert