Tjón Irmu talið ná „sögulegum“ hæðum

Þök fóru m.a. af húsum á Miami.
Þök fóru m.a. af húsum á Miami. AFP

Rick Scott ríkisstjóri Flórída hefur varað við því að enn megi búast við lífshættulegum vindhviðum í Flórída, þó að fellibylurinn Irma hafi nú breyst úr þriðja stigs yfir í fyrsta stigs fellibyl. Að sögn bandaríska dagblaðsins Miami Herald þá hafa hvað mestar skemmdir orðið á efir og miðhluta Florida Keys, en sá hluti varð fyrir barðinu á ofsafengnari hlið Irmu þar sem vindhraði var um 210 km/klst.

Stjórnendur almannavarna í Monroe sýslu hafa gefið í skyn að fellibylurinn kunni að hafa kostað einhverja lífið í sýslunni og lýsti einn stjórnenda eyðileggingunni sem yfirvofandi „mannúðar hörmungum“.

Þessi flutningabíll lenti á hliðinni þegar Irma fór yfir Miami.
Þessi flutningabíll lenti á hliðinni þegar Irma fór yfir Miami. AFP

BBC segir staðfest að fjórir hið minnsta hafi látið lífið í ferð Irmu um Flórídaskaga, áður hefur verið staðfest að hún hafi 28 manns hið minnast lífið á ferð sinni um eyjar Karíbahafs. Segir BBC lögreglumann sem var við störf í fellibyljaskýli í Hardee-sýslu hafa látist á  heimleið er hann lenti í árekstri við annan lögreglumann sem einnig lést í árekstrinum.

Einn lést þá í árekstri í Orange-sýslu og annar lést í Marathon í Monroe-sýslu þegar vörubíll hans lenti á tré.

5,7 milljónir manna á Flórída eru nú án rafmagns að því því er CNN hefur eftir Scott.

Fréttamenn, m.a. veðurfréttamenn hafa verið gagnrýndir fyrir að taka áhættu við fréttaflutning sinn af fellibylnum, enda eru fréttirnar oft fluttar utan dyra með beljandi storminn í bakgrunni. 

Frétt ABC sjónvarpsstöðvarinnar frá Miami hefur þá vakið mikla athygli. Fréttamaður stöðvarinnar segir þar frá aftaka veðrinu með mikilfenglegan vindinn og úfinn sjó í bakgrunni, sem einhver er greinilega að nýta sér til þess að fljúga flugdreka.

Segir kostnaðinn verða „sögulegan“

Debbie Wasserman Schultz, þingmaður Flórída, segir kostnað bandaríska ríkisins vegna þeirra skemmda sem Irma hefur valdið eiga eftir að verða einn sá mesti í sögu Bandaríkjanna. „Þetta er einn stærsti fellibylur sem hefur lent á Bandaríkjunum á okkar tímum. Það sem er mjög alvarlegt er að hann fer yfir næstum allt ríkið, margar stórborgir og við eigum eftir að þurfa á endurbótum að halda á skala sem ekki hefur sést áður í Bandaríkjunum,“ sagði Wasserman Schultz í samtali við BBC.

Hún sagði Bandaríkjaþing, sem nýlega samþykkti 15 milljarða dollara björgunarpakka fyrir fórnarlömb fellibyljarins Harvey í Texas, nú þurfa að koma upp með enn hærri upphæð fyrir Flórida. „Af því að endurbætur þar munu reynast þær dýrustu í sögunni.“

Bronek Masojada, forstjóri Hiscox  tryggingafélagsins segir líklegt að samanlögð áhrif fellibyljanna Irmu og Harveys muni reynast tryggingafélögum kostnaðarsamari en tjónið sem fellibylurinn Katrina olli 2005.

Katrina, sem olli miklu tjóni í New Orleans, hefur lengi verið talinn einn kostnaðarsamasti viðburður í sögu tryggingafélaga, en samanlagt tjónið var metið á um 200 milljarða dollara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert