Þrír látnir af völdum Sebastians

Slökkvilið hreinsar hér tré sem fallið hafa yfir veginn í …
Slökkvilið hreinsar hér tré sem fallið hafa yfir veginn í nágrenni Ebstorf í norðurhluta Þýskalands. AFP

Stormurinn Sebastian, sem nú fer yfir norðurhluta Þýskalands, hefur kostað þrjá lífið hið minnsta. Danska ríkisfréttastofan DR segir Sebastian hafa náð  fellibylsstyrk í verstu vindhviðunum sem mælst hafa allt að 130 km/klst.

Í Hamborg fannst maður í hjólastól látinn eftir að hann drukknaði í flóði sem fylgdi storminum. Björgunarsveitarteymi með kafara og þyrlu reyndi að koma honum til bjargar í tæka tíð,en tókst ekki. Þá lést fótgangandi maður í Hamborg þegar hluti stillansa féll á hann af sjöundu hæð og loks lést maður þegar tré lenti á honum í bænum Brilon í Vestur-Þýskalandi.

Sebastian fór í gær yfir norður- og vesturhluta Þýskalands og stefnir nú í austur að sögn þýsku veðurstofunnar.

Víða er rafmagnslaust í landinu og hafa bæjaryfirvöld hvatt fólk til að halda sig heima við á meðan unnið er að því að hreinsa vegi og koma rafmagni á að nýju.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert