Viðtæk leit að árásarmönnum

AFP

Víðtæk leit stendur yfir í Bretlandi að þeim sem ábyrgir eru fyrir því að koma fyrir sprengju í lest í London í gær með þeim afleiðingum að 29 manns særðust. Viðbúnaðarstig var hækkað í landinu í kjölfarið upp í hæsta stig sem þýðir að talið sé mögulegt að önnur árás sé yfirvofandi. Þetta kemur fram í frétt AFP.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en þetta er fimmta hryðjuverkið sem framið er í Bretlandi á undanförnum sex mánuðum. Sprengingin varð á lestarstöðunni Parsons Green í suðvesturhluta London og skapaði eldhaf sem varð til þess að margir farþegar hlutu brunasár.

Hermenn voru kallaðir út í gær til þess að sinna öryggisgæslu í London til þess að létta á lögreglunni. Enginn hefur enn verið tekinn höndum vegna málsins en haft er eftir lögregluforingjanum Mark Rowley að rannsókn þess gangi vel. Lögreglan væri á góðri leið með að hafa uppi á einstaklingum sem grunaðir væru um aðild að árásinni.

AFP
AFP
mbl.is