„100 skráðu sig en 90 mættu“

Umtalaðasti maður Noregs þessa dagana, Eirik Jensen (í brúnum leðurjakka), …
Umtalaðasti maður Noregs þessa dagana, Eirik Jensen (í brúnum leðurjakka), gengur í réttarsalinn í morgun. Hann hlaut 21 árs fangelsi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Eirik Jensen, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í lögreglunni í Ósló, hlaut í dag 21 árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Óslóar fyrir hlutdeild í innflutningi á 14 tonnum af hassi.

Rétt í þessu var kveðinn upp dómur í stærsta og umtalaðasta spillingarmáli Noregs fram á þennan dag, máli fyrrverandi yfirlögregluþjónsins Eirik Jensens og Gjermund Cappelens, hasskóngsins frá Bærum. Var Jensen ákærður fyrir stórfellda spillingu og fíkniefnamisferli auk ófullnægjandi geymslu á skotfærum en Cappelen fyrir innflutning á alls 16,7 tonnum af hassi tímabilið 1993 til 2013. Héraðsdómur taldi refsingu Jensens hæfilega ákveðna 21 ár en Cappelen hlaut 15 ára dóm.

Ákæruvaldið, Lars Erik Alfheim saksóknari auk tveggja saksóknara frá sérstakri rannsóknardeild lögreglunnar í innri málefnum (n. spesialenheten for politisaker), fór fram á 21 árs fangelsi yfir Jensen en 18 ára yfir Cappelen, reyndar upphaflega 21 en Alfheim taldi rétt að meta honum þrjú ár til refsilækkunar, eitt fyrir að játa sök í málinu og tvö til fyrir að benda á helsta samstarfsmann sinn, Jensen. Auk þess er krafist upptöku 825 milljóna norskra króna, rúmlega ellefu milljarða íslenskra króna, hjá Cappelen og 2,4 milljóna, 32,5 milljóna íslenskra, hjá Jensen sem rannsóknardeild lögreglunnar telur Cappelen hafa greitt honum.

Áfall fyrir lögregluna

Sama er hvort niðurstaða dómsins hefði orðið sekt eða sýkna í hluta Jensens, lögreglan í Ósló er í hreinni úlfakreppu vegna málsins. Sekt er augljóslega ægiþungt högg fyrir lögregluna en sýkna hefði á hinn bóginn verið áfellisdómur yfir vinnubrögðum rannsóknardeildar í innri málefnum sem lagt hefur nótt við dag síðan snemma árs 2014 við að leiða þátt Jensens í málinu í ljós.

Gjermund Cappelen, sem ákærður er í þessu máli fyrir innflutning …
Gjermund Cappelen, sem ákærður er í þessu máli fyrir innflutning á tæpum 17 tonnum af hassi, ræðir við verjanda sinn, Benedict de Vibe, en honum á vinstri hönd situr hinn verjandinn, Kaja de Vibe Malling, en þau verjendur eru feðgin. „Við skulum bara sjá hvað dómarinn segir,“ sagði Cappelen sallarólegur þegar fréttamenn inntu hann spádóma um niðurstöðuna í dag. Hann hlaut 15 ár. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Réttarhöldin í málinu stóðu í fimm mánuði og lauk í vor en þá höfðu alls 122 vitni komið fyrir dóminn samanlagt af hálfu ákæruvalds og verjenda. Eitt af því sem stóð upp úr í réttarhöldunum var boðskiptakerfi Jensens og Cappelens sem einkum fólst í SMS-skilaboðum, og ákæruvaldið varði miklu púðri í að túlka, en alls 1.523 SMS-skilaboð og tölvupóstar voru lögð fyrir dóminn. Voru veðurlýsingar þar tíðar, svo sem „Sólin skín í dag“, „Gott veður hérna megin“ og annað í þeim dúr og lagði ákæruvaldið á sig mikla rannsóknarvinnu til að sýna fram á hvernig veðrið hefði í raun verið í Ósló þá daga sem skilaboðin voru send.

Ein SMS-skilaboð taldi ákæruvaldið að væru kvartanir Jensens um að greiðslur, sem honum hefði verið lofað, hefðu verið vanefndar að hluta og þar einkum vísað til skilaboðanna „100 skráðu sig til þátttöku en aðeins 90 mættu“ en þar bar Jensen að hann hefði eingöngu verið að ræða lögreglustörf við Cappelen. Annað sagði Cappelen sem fullyrti að þarna hefði Jensen verið ósáttur við að 10.000 krónur vantaði upp á þóknun til hans.

Lars Erik Alfheim saksóknari, einn þriggja í málinu, bíður í …
Lars Erik Alfheim saksóknari, einn þriggja í málinu, bíður í rólegheitum eftir að dómarar gangi í salinn og hefji lestur dómsins. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég get ekki tekið við gjöfum frá glæpamönnum“

Peningar voru þó ekki eini greiðslumiðillinn í meintum viðskiptum þeirra félaga því Cappelen gaf Jensen nýja baðherbergisinnréttingu auk uppsetningar á henni fyrir 250.000 norskar krónur, um 3,4 milljónir íslenskar. Enginn virtist þó hafa fengið greitt fyrir vinnuna og sagði Jensen það hafa helgast af því að þegar hann ætlaði að greiða iðnaðarmanninum fyrir vinnuframlagið hafi hann ekki náð í hann og greiðslan því aldrei átt sér stað.

Kim Heger dómsformaður gengur í salinn ásamt fjórum meðdómendum sínum, …
Kim Heger dómsformaður gengur í salinn ásamt fjórum meðdómendum sínum, setur réttarhöldin og hefst svo upplestur 105 blaðsíðna dóms yfir Jensen og Cappelen. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Að lokum sýndi ákæruvaldið fram á að Cappelen hefði gefið Jensen Tag Heuer-úr að andvirði 22.500 norskra króna, rúmlega 300.000 íslenskra, sem keypt hefði verið hjá Urmaker Bjerke í Ósló í mars 2009. Fannst kvittun fyrir úrinu á heimili Jensens og tókst ákæruvaldinu að sýna fram á að fingraför hans voru á kvittuninni þegar hann neitaði að kannast við hana. Jensen breytti þá framburði sínum og sagði að Cappelen hefði gefið honum úrið „í þakklætisskyni fyrir allt sem ég hef gert fyrir hann gegnum árin“, en hann hafi svo skilað Cappelen úrinu. Alfheim saksóknari vildi vita hvers vegna hann gerði það og svaraði Jensen þá: „Ég get náttúrulega ekki tekið við gjöfum frá glæpamönnum.“

Feðgin verja Cappelen

Dómsuppkvaðning hófst í stærsta þingsal Héraðsdóms Óslóar, sal 250, klukkan 09:30 í morgun (07:30 að íslenskum tíma) og var öryggisgæsla á staðnum gríðarleg, vopnaleit og minnst tólf lögregluþjónar á staðnum sem skoðuðu skilríki allra sem fóru inn í dómsalinn. Skömmu fyrir upphaf dómþings gekk Eirik Jensen í salinn með verjendum sínum, þeim John Christian Elden og Arild Holden, en Gjermund Cappelen gekk skömmu síðar inn um hliðardyr ásamt sínum verjendum, feðginunum Benedict de Vibe og Kaju de Vibe Malling. Stirt er á milli þeirra fyrrverandi félaganna, Jensens og Cappelens, og hafa þeir hvorki talast við né horfst í augu við rekstur málsins.

Fréttamenn ræða við Gjermund Cappelen. Í forgrunni situr John Christian …
Fréttamenn ræða við Gjermund Cappelen. Í forgrunni situr John Christian Elden, annar verjenda Eirik Jensens. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Næst gekk fjölskipaður dómur í salinn, Kim Heger dómsformaður ásamt öðrum dómara til og þremur dómkvöddum meðdómsmönnum. Hófst svo lestur dómsins yfir Jensen og Cappelen sem er 105 blaðsíður á lengd og tók lesturinn um fjórar klukkustundir en ekki varð ljóst fyrr en í lokin, þegar dómsorð var lesið, hver hin eiginlega niðurstaða var. Öruggt er að málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.

„Hlýtt og gott á skrifstofunni“

Nokkur dæmi um boðskiptakerfi Cappelens og Jensens í SMS-skilaboðum en Jensen hét „Mr. Good“ í símaskránni í síma Cappelens:

„Hádegisverður“: Útdeiling á hassi.

„Fáir á skrifstofunni í dag“: Lítið landamæraeftirlit (mikið magn af hassinu kom með flutningabílum frá Hollandi sem ekið var gegnum tollstöðina við Svinesund á landamærum Noregs og Svíþjóðar).

„Hlýtt og gott á skrifstofunni“: Allt gengur eftir áætlun.

„Er ljós í göngunum?“: (sennilega) Er varan á leiðinni?

„Byggingaframkvæmdunum er frestað í tvær vikur“: Beðið með sendingu vegna vandkvæða.

„Viltu líta á varahlutina? Þú sérð strax hvort þeir eru ekta“: Beðið um gæðaúttekt á hassinu.

„Allir í fríi“: Ekkert eftirlit á tollstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert