Búa sig undir komu Mariu

Irma olli gríðarlegri eyðileggingu og nú óttast íbúar eyjanna í …
Irma olli gríðarlegri eyðileggingu og nú óttast íbúar eyjanna í Karíbahafinu hvað muni gerast þegar Maria fer þar yfir. AFP

íbúar á eyjum í Karíbahafi eru að búa sig undir enn einn fellibylinn, Mariu, sem nálgast Leeward-eyjar óðfluga. 

Maria er skilgreind sem fyrsta stigs fellibylur en hún mun stigmagnast næstu tvo sólarhringa. Búast má við að hún fari yfir eyjaklasann aðfaranótt þriðjudags, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku fellibyljamiðstöðinni (National Hurricane Center).

Ferðalag Mariu fylgir svipaðri leið og Irma, fellibylurinn sem olli skelfilegu tjóni á þessum slóðum fyrr í mánuðinum.

Fellibyljaviðvörun hefur verið gefin út í Gvadelúp, Dóminíku St. Kitts og Nevis, Montserrat og Martiník.

Fylgst er með bandarísku og bresku Jómfrúreyjum, St. Martin, St. Barts, Saba, St Eustatius og Anguilla. Irma lék hluta þessara eyja illa þegar hún fór með ógnarkrafti þar yfir. Að minnsta kosti 37 létust og er tjónið metið á milljarða Bandaríkjadala, segir í frétt BBC.

Maria hefur nú náð vindstyrknum 39 metrum á sekúndu en miðja hennar er um það bil 140 sjómílur norðaustur af Barbados.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert