Fagnaðarlæti við aftöku

Mynd af aftöku úr safni.
Mynd af aftöku úr safni. AFP

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar maður var hengdur opinberlega í Íran í morgun. Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa nauðgað og drepið sjö ára gamla stúlku. 

Sýnt var myndskeið frá aftökunni í ríkissjónvarpi Írans en Esmail Jafarzadeh, 42 ára, var hengdur í dögun á torgi í litlum bæ, Parsabad, í Ardebil.

Saksóknari í Ardebil, Naser Atabati, segir að aftakan hafi verið opinber til þess að endurvekja traust almennings á öryggi í landinu og sefa reiði almennings vegna morðsins.

Þegar Atena Aslani, sjö ára, hvarf 19. júní þar sem hún gekk eftir sömu götu og faðir hennar er með sölubás, varð uppi fótur og fit á samfélagsmiðlum í landinu enda virtist litla stúlkan hafa gufað upp.

Að sögn saksóknara játaði Jafarzadeh við yfirheyrslu að hafa nauðgað henni og drepið skömmu eftir að lík hennar fannst í bílskúr hans í bænum. 

Forseti Írans, Hassan Rouhani, segir málið skelfilegt og hvatti til þess að dæmt yrði strax í málinu. Það tók innan við viku að dæma Jafarzadeh til dauða eftir að réttarhöld hófust í lok ágúst. Hæstiréttur staðfesti dauðadóminn 11. september.

Að sögn saksóknara játaði Jafarzadeh einnig að hafa myrt konu fyrir tveimur árum en lík hennar hefur aldrei fundist.

Ekki eru  birtar opinberar upplýsingar um hversu margar aftökur fara þar fram á ári hverju en samkvæmt Amnesty International er Íran á lista yfir þau fimm ríki sem flestir eru teknir af lífi. Flestir þeirra eru teknir af lífi fyrir fíkniefnasmygl. Nýlega voru gerðar breytingar á refsilöggjöf landsins þannig að talið er að margir þeirra sem eru á dauðadeild vegna fíkniefnamála verði ekki teknir af lífi. 

Annað skelfilegt mál skekur landsmenn en bifreið fjölskylduföður var stolið nýverið þegar hann fór út úr bílnum til þess að opna hliðið við heimili þeirra í úthverfi Teheran. Í bílnum var átta mánaða gömul dóttir hans. Lík hennar fannst í bílnum sex dögum síðar. Tveir menn hafa verið ákærðir fyrir morðið en ekki hefur verið dæmt í máli þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert