Mexíkóbúar vanir mannskæðum skjálftum

Þessi íbúðabygging í Mexíkóborg var jöfnuð við jörðu í kjölfar …
Þessi íbúðabygging í Mexíkóborg var jöfnuð við jörðu í kjölfar skjálftans árið 1985. Að minnsta kosti 10.000 létu lífið. Wikipedia/United States Geological Survey

Að minnsta kosti 200 eru látnir eftir að 7,1 stiga jarðskjálfti reið yfir Mexíkó í gær, rúmum þrjátíu árum upp á dag eftir að 10.000 manns létust í öðrum jarðskjálfta. Landið liggur á nokkrum stórum jarðskorpuflekum og landsmenn því vanir mannskæðum jarðhræringum.

AFP hefur tekið saman nokkra af stærri skjálftunum sem riðið hafa yfir Mexíkó síðustu ár:

7. september 2017 - Um 100 manns létust í skjálfta sem mældist 8,2 stig. Fleiri en 200 særðust. Áhrifanna gætti einna helst í suðurríkjunum Oaxaca og Chiapas. Skjálftinn fannst í mikilli fjarlægð, t.d. í Mexíkóborg, sem liggur um 800 km frá upptökum skjálftans.

21. janúar 2003 - 7,6 stiga skjálfti skekur vesturströnd Kyrrahafs. 29 létu lífið og fleiri en 300 særðust.

30. september 1999 - Að minnsta kosti 22 létu lífið í 7,5 stiga skjálfta í Suður- og Mið-Mexíkó.

15. júní 1999 - 7 stiga skjálfti skekur Puebla í miðhluta landsins og að minnsta kosti 25 láta lífið.

9. október 1995 - Að minnsta kosti 48 láta lífið þegar 8 stiga skjálfti gengur yfir vesturríkin Colima og Jalisco. Í bænum Manzanillo nam fjöldi látinna 30 en fólkið lést þegar sjö hæða hótelbygging hrundi.

19. september 1985 - Einn öflugasti skjálfti sem mælst hefur í Mexíkó, 8,1 stig, skekur Mexíkóborg og nágrenni. Að minnsta kosti 10.000 láta lífið í borginni en sumir áætla að heildarfjöldi látinna hafi numið 30.000. Skjálftinn á upptök sín um 300 km utan borgarinnar en leggur stóra hluta hennar í rúst.

Í kjölfar skjálftans hófu stjórnvöld það verkefni að herða byggingarreglugerðir og setja upp eftirlits- og viðvörunarkerfi meðfram Kyrrahafsströndinni, þar sem hættan er mest.

Húsarústir í Mexíkóborg eftir skjálftann í gær.
Húsarústir í Mexíkóborg eftir skjálftann í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert