Stjórnvöld á Sri Lanka hafa heitið því að hefja rannsókn eftir að heilbrigðisráðherra landsins viðurkenndi að börn hefðu verið tekin af mæðrum sínum og seld útlendingum til ættleiðinga á 9. áratug síðustu aldar.
Heilbrigðisráðherrann Rajitha Senaratne segir að stjórnvöld hyggist m.a. setja á fót erfðaefnabanka til að gera börnum sem ættleidd voru til útlanda kleift að leita uppruna síns, og öfugt.
Í viðtali vegna sjónvarpsþáttar sem sýndur var í Hollandi á miðvikudag viðurkenndi ráðherrann tilvist svokallaðra „barnabýla“ á 9. áratugnum, þar sem börn voru geymd eftir að þau voru ýmist keypt eða þeim stolið af foreldrum sínum. Þau voru í kjölfarið seld útlendingum.
Býlin urðu til þess að ættleiðingar milli landa voru bannaðar en glæpastarfsemin komst í fjölmiðla þegar 20 nýfædd börn og 22 konur fundust við „fangelsislíkar“ aðstæður í kjölfar lögregluaðgerðar árið 1987.
Framleiðendur fréttaþáttarins Zembla halda því fram að umfagnsmikil fölsun hafi átt sér stað á gögnum um ættleiðingar frá Sri Lanka á þessum tíma.
Fleiri en 11 þúsund börn voru ættleidd erlendis frá Sri Lanka á 9. áratugnum. Um 4.000 enduðu í Hollandi en önnur fóru til Bretlands, Svíþjóðar og Þýskalands, segja þáttasmiðirnir.
Ein kona sagði í samtali við þáttagerðarfólkið að henni hefði verið tjáð að barnið hennar hefði látist skömmu eftir fæðingu á sjúkrahúsi í Matugama en að fjölskyldumeðlimur hefði séð lækni bera barnið út af spítalanum lifandi.
Önnur kona greindi frá því að sjúkrahússtarfsmaður hefði greitt henni fyrir að þykjast vera móðir barns, sem var síðan afhent glæpamönnunum.
Í heimildarþættingum er því haldið fram að læknar og hjúkrunarfræðingar hafi átt milligöngu um að útvega erlendum ættleiðingarstofum börn. Einn milliliður sagði að konur hefðu jafnvel verið barnaðar til að mæta eftirspurn að utan.