Glataðir Faberge-hnífar dúkka upp

Hnífarnir tveir úr smiðju Faberge. Sá stærri var ætlaður til ...
Hnífarnir tveir úr smiðju Faberge. Sá stærri var ætlaður til framleiðslu en sá minni til einstaklingsnota. AFP

Í kjölfar októberbyltingarinnar í Rússlandi 1917, þegar Nikulási II hafði verið komið frá völdum, þarfnaðist ný stjórn bolsévika fjármagns til að viðhalda byltingunni og treysta vald sitt. Verðmætar eignir keisarans, yfirstéttarinnar og rétttrúnaðarkirkjunnar voru þjóðnýttar og handgerðir dýrgripir bræddir.

Meðal þeirra muna sem mættu örlögum sínum með þessum hætti var fágætt borðbúnaðarsett úr silfri, gert af skartgripasmiðnum Faberge, og því vakti það mikla athygli á dögunum þegar tveir hnífar úr settinu dúkkuðu upp í Póllandi.

Talið er að yfir 100 silfurgripir sem Peter Carl Faberge smíðaði fyrir hina vellauðugu Kelch-fjölskyldu í St. Pétursborg hafi verið bræddir; framreiðsluföt, diskar og hnífapör. En nú er sumsé ljóst að það fór ekki allt settið forgörðum.

„Tveir fiskihnífar; annar til framreiðslu sem telur 35 sm og annar fyrir einstaklingsnotkun sem telur 21 sm, björguðust,“ segir Adam Szymanski, pólskur listfræðingur og sérfræðingur í Faberge.

Kelch-setrið í St. Pétursborg.
Kelch-setrið í St. Pétursborg. Ljósmynd/saint-petersburg.com

„Umtalsverð upphæð“

Fram að þessu höfðu listspekingar og Faberge-stofnunin talið að silfurborðbúnaður Kelch-fjölskyldunnar hefði glatast í heild sinni, aðs ögn Szymanski.

Hnífunum var hins vegar bjargað þökk sé hermanni Rauða hersins, sem fékk þá að gjöf árið 1918 fyrir að aðstoða við bræðslu annarra muna úr stellinu. 

Árið 1921 seldi hermaðurinn pólskum lækni hnífana en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir um afdrif þeirra eftir stríð nema að þeir héldust í eigu sömu fjölskyldunnar þar til þeir voru seldir nýjum eiganda árið 2016.

Samkvæmt Szymanski eru hnífarnir ekki síst markverðir fyrir að vera í nýgotneskum stíl, sem var fátítt fyrir muni úr smiðju Faberge.

Saga hnífanna nær aftur til aldamótanna 1900.

Áður en Barbara Kelch-Bazanova gekk í hjónaband erfði hún ein mestu auðæfi Rússlands á þeim tíma. Hún pantaði borðbúnaðinn fyrir „umtalsverða upphæð“; 125 þúsund rúblur, frá Faberge.

Faberge, rússneskur skartgripasmíður sem átti rætur sínar að rekja til Þýskalands og Danmerkur, erfði rekstur föður síns árið 1870 og varð frægur fyrir gimsteinum prýdd egginn sem hann smíðaði fyrir keisarann.

Fyrsta eggið pantaði Alexander III fyrir eiginkonu sína sem páskagjöf en keisarynjan Maria Feodorovna var svo uppnumin að Faberge var útnefndur skartgripasmiður rússnesku hirðarinnar.

Skartgripasmiðurinn Carl Peter Faberge að störfum.
Skartgripasmiðurinn Carl Peter Faberge að störfum. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ætlað að heilla matargesti

Peter Carl Faberge smíðaði 52 egg fyrir Romanov-keisarana og sjö fyrir Kelch-fjölskylduna; öll listilega skreytt gulli og eðalsteinum og í mismunandi stíl, t.d. rókókó og Loðvík XVI.

Barbara Kelch-Bazanova bjó í St. Pétursborg og var ævintýralega auðug en áar hennar voru kaupmenn í Moskvu. Eiginmaður Kelch-Bazanovu var aðalsmaður en hún hafði mikinn metnað til að klifra stéttarstigann.

Borðbúnaðurinn sem hún pantaði frá Faberge var fyrir 32 og var ætlað að heilla þá gesti sem boðið var til málsverðar í nýgotneskum kvöldverðarsal Kelch-setursins, sem slapp frá eyðileggingu í byltingunni.

„Það er enginn vafi; bókstafurinn K á hnífunum er nákvæmlega eins og þeir sem sjást í Kelch-kvöldverðarsalnum,“ segir Szymanski. „Hnífarnir bera Faberge-merkið... nafnið Faberge í kyrillísku letri er auðsjáanlegt.“ 

Ljósmynd af settinu, sem tekin var árið 1902 í tengslum við sýningu á verkum Faberge á vegum keisaraynjunnar, sannar einnig að hnífarnir tilheyrðu því.

Barbara Kelch fluttist til Moskvu eftir að hafa skilið við eiginmann sinn árið 1905 og að sögn Szymanski eru allar líkur á því að borðbúnaðurinn hafi fylgt henni. Það var þar, í kjölfar byltingarinnar, sem munirnir voru eyðilagðir.

Hnífarnir bera bæði K fyrir Kelch-fjölskylduna og merki Faberge.
Hnífarnir bera bæði K fyrir Kelch-fjölskylduna og merki Faberge. AFP

128 milljónir?

Að sögn Szymanski seldi hermaðurinn rússneski hnífana tvo til Pólverja að nafni Josef Wolski. Núverandi eigandi þeirra, pólskur safnari sem komst að því að þeir tilheyrðu Faberge-settinu þegar hann leitaði sérfræðikunnáttu Szymanski, geymir þá í bankahólfi.

Szymanski segir bandarískan safnara þegar hafa boðið jafnvirði 128 milljóna króna fyrir gripina. Þá hafi rússneskur safnari einnig sýnt áhuga.

Tveir sérfræðingar sem AFP leitaði til eru ekki í vafa um uppruna hnífanna en efast hins vegar um að þeir séu svo mikils virði.

„Hnífapör eru fjöldaframleidd og verðmæti þeirra aldrei það stórkostlegt,“ segir Alexander von Solodkoff, þýskur sérfræðingur, sem situr í ráðgjafanefnd Faberge-safnsins í St. Pétursborg.

„Það voru stóru hlutirnir sem voru verðmætastir,“ segir hann.

„Ef ég væri eigandinn myndi ég þiggja milljónir dala undir eins!“ segir franski sérfræðingurinn Maxime Charron með nokkurri kaldhæðni. „Þrátt fyrir að vera fágætir og áhugaverðir gripir eru þetta bara hnífapör.“

mbl.is
Anne-Gaëlle et Benjamin
Le plus beau des voyages c'est celui que nous accomplissons désormais, celui qui...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Viðeyjarbiblía 1841 til sölu
Til sölu Viðeyjarbiblía frá 1841, upplýsingar í síma 772-2990 eða á netfangið rz...
Þreyttur á reykinga- myglulykt, lausn ?
Eyðir flest allri ólykt, m.a. Myglu-gró ásamt og raka- reykinga- og brunalykt. ...
 
Formannskjör
Fundir - mannfagnaðir
Formannskjör í Sjúkraliðafélagi Ísla...
Bækur til sölu
Til sölu
Bækur til sölu Menntamál 1.-42. árg. ...
Framhald uppboðs
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungarsolu...
Samkoma
Félagsstarf
Samkoma kl. 20 í Kristniboðs- salnum. R...