SÞ saka Rússa um mannréttindabrot

Þinghúsið í Kíev höfuðborg Úkraínu. Rússar innlimuðu Krímskaga inn í …
Þinghúsið í Kíev höfuðborg Úkraínu. Rússar innlimuðu Krímskaga inn í rússneska ríkið árið 2014 þegar þáverandi forseta Úkraínú sem var hliðhollur ráðamönnum í Rússlandi var steypt af stóli. Áður tilheyrði skaginn Úkraínu. AFP

Rússnesk stjórnvöld standa fyrir „alvarlegum mannréttindabrotum á Krímskaga“ að því er fram kemur í skýrslu sem unnin er af mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Í skýrslunni er fjallað um handahófskenndar handtökur, pyndingar og að minnsta kosti eina aftöku án dóms og laga.

„Hér er veruleg þörf á aukinni ábyrgð,“ hefur BBC eftir Zeid Ra'ad Al Hussein mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna.

Rússar innlimuðu Krímskaga inn í rússneska ríkið árið 2014 þegar þáverandi forseta Úkraínu, sem var hliðhollur ráðamönnum í Rússlandi, var steypt af stóli. Áður tilheyrði skaginn Úkraínu.

Enginn viðbrögð við skýrslunni hafa enn borist frá rússneskum stjórnvöldum.

„Alvarleg mannréttindabrot eins og handahófskenndar handtökur og fangelsun, fólkshvörf og borist hafa fréttir af illri meðferð og pyndingum og að minnsta kosti ein aftaka án dóms og laga hefur verið skráð,“ segir í skýrslunni

Þá hafi einnig verið dæmi um húsleitir í húsum í einkaeigu, sem brjóti gegn réttinum til einkalífs.

Úkraínska horfin úr skólum

Segir í skýrslunni að staða mannréttindamála hafi „farið verulega versnandi“ í héraðinu og að hundruð fanga hafi verið fluttir ólöglega frá Krímskaga yfir í rússnesk fangelsi.

Þá hafi ríkisstarfsmenn á svæðinu verið neyddir til að segja af sér úkraínskum ríkisborgararétti sínum eða eiga á hættu að missa vinnuna. Þá er fordæmd sú ákvörðun yfirvalda í Moskvu að skipta úkraínskum lögum út fyrir rússnesk.

„Öll kennsla á úkraínsku er gott sem horfin úr skólum á Krímskaga,“ segir í skýrslunni sem byggir á viðtölum sem framkvæmd voru í Úkraínu þar sem rannsakendum var ekki leyft að fara inn á Krímskaga.

Meirihluti íbúa Krímskaga eru rússneskumælandi og kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu að sameinast Rússlandi. Yfirvöld í Úkraínu og á Vesturlöndum telja atkvæðagreiðsluna hins vegar vera ólöglega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert