„Ásakanirnar fáránleg martröð“

Svíþjóðardemókratar eru þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn á sænska þinginu.
Svíþjóðardemókratar eru þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn á sænska þinginu. Af vef Svíþjóðardemókrata

Blaðafulltrúi Svíþjóðardemókrata, Henrik Vinge, greindi frá því í gærkvöldi að þingmaður flokksins, sem er grunaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart þingkonu sama flokks, hafi ákveðið að fara í tímabundið leyfi frá þingstörfum á meðan málið er rannsakað. Þingmaðurinn segir málið „fáránlega martröð“.

Á mánudag upplýsti Hanna Wigh, sem sat á þingi fyrir Svíþjóðardemókrata, að hún væri búin að segja sig úr flokknum, Svíþjóðardemókrötum, og yrði sjálfstæður þingmaður. Ástæðan er að þaggað hafi verið niður í henni af flokksforystunni þegar hún vakti máls á kynferðislegri áreitni.

Wigh, sem hefur setið á þingi fyrir SD frá árinu 2014, steig fram ásamt nokkrum öðrum stjórnmálakonum, í þættinum Kalla Fakta í sænska ríkissjónvarpinu. Þar var fjallað um kynlífshneyksli, ásakanir um nauðganir, áreitni og tilraunir Svíþjóðardemókrata að hylma yfir kynbundið ofbeldi innan flokksins.

Eitt sem kom fram hefur vakið mikla athygli en þar lýsti Wigh því hvernig annar þingmaður SV hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi.

„Hann setti höndina um hálsinn á mér og þrýsti mér upp að veggnum. Síðan setti hann lausu höndina inn undir buxurnar mínar og þrýsti fingrinum upp,“ sagði Wigh.

Hún greindi stjórnendum SD frá þessu en fór ekki til lögreglunnar þar sem hún óttaðist afleiðingar þess.

Svíþjóðardemókratar tilkynna málið til lögreglu

Hins vegar tilkynnti flokkurinn það núna í vikunni og er málið til rannsóknar hjá saksóknara. Þingmaðurinn sem um ræðir neitaði ásökunum í viðtali við Expressen og segist aldrei hafa beitt Hanna Wigh kynferðislegu ofbeldi né aðrar konur.

Í viðtali við Aftonbladet sagðist hann hafa litið á hana sem trúnaðarvin. „Ég hélt að við ættum í góðu sambandi. Við vorum í kynferðislegu sambandi af og til frá árinu 2012. Það var að hennar frumkvæði og mínu frumkvæði – mörgum sinnum.“

Réttlætir það þetta sem gerðist í þinginu?

Formaður SD, Jimmie Åkesson, og fleiri háttsettir einstaklingar innan flokksins segjast ekki hafa vitað af atvikinu sem átti sér stað í þinginu í mars 2016. Wigh segist hafa tjáð þeim um þetta. 

Hanna Wigh.
Hanna Wigh. Vefur sænska þingsins

„Það er sorglegt hvernig þeir hafa ákveðið að taka á þessu. Þeir taka þetta ekki alvarlega,“ sagði hún við Expressen í gærkvöldi. „Það að þeir hafi tilkynnt þetta til lögreglunnar er aðeins hernaðarkænska. Með því segjast þeir taka þetta alvarlega en vita á sama tíma að rannsókninni verður hætt.“

Spurð út í fullyrðingar þingmannsins um að þau hafi átt í kynferðislegu sambandi segir hún: „Ég veit ekki hvaðan þetta kemur. Réttlætir það þetta sem gerðist í þinginu? Við áttum í nánu sambandi og við vorum nánir vinir en ég vil ekki tala um það. Með því væri verið að leyfa SD að stjórna umræðunni,“ segir hún.

Wigh bætir við: „Allt þetta tal um öruggi kvenna og stúlkna er aðeins áróður. Þeir hafa engan áhuga á því,“ segir Wigh.

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata.
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata. AFP

Svíþjóðardemókratar eru þriðji stærsti flokkurinn á sænska þinginu en hafa verið að mælast annar stærsti flokkurinn í Svíþjóð í skoðanakönnunum undanfarin misseri. Hafa hugmyndir þeirra um að koma í veg fyrir að innflytjendur fái að setjast að í Svíþjóð aukið fylgi þeirra til muna. 

mbl.is