Meirihluti þingmanna vill ekki í ESB

Norden.org

Fleiri þingmenn á norska Stórþinginu eru andvígir því að Noregur gangi í Evrópusambandið en þeir sem vilja í sambandið í kjölfar þingkosninganna fyrr í þessum mánuði. Þetta er niðurstaða könnunar samtakanna Nei til EU, sem leggjast gegn inngöngu í ESB.

Fram kemur í frétt Nettavisen að samkvæmt könnuninni séu 84 þingmenn andvígir inngöngu í Evrópusambandið og 38 hlynntir henni. Tólf hafi ekki tekið afstöðu og 35 ekki svarað. Ekki hafi áður gerst frá 1994 að fleiri hafi verið á móti því að ganga í sambandið.

„Við fögnum því að við höfum loksins Stórþing sem endurspeglar afstöðu þjóðarinnar,“ er haft eftir Kathrine Kleveland, formanni Nei til EU, en samtökin hafa kannað afstöðu þingmanna til málsins frá árinu 1994. Mikill meirihluti Norðmanna hefur verið andvígur inngöngu í Evrópusambandið í öllum skoðanakönnunum allt frá árinu 2005.

Formaður norsku Evrópusamtakanna, Jan Erik Grindheim, segist hins vegar óánægður með þessa þróun. „Þetta er mjög sorglegt því Evrópusambandsins er meiri þörf en nokkurn tímann. Þjóðernishyggja er í sókn og ef allir verða á móti sambandinu verður ekki friður í Evrópu.“

Hins vegar er meirihluti þingmanna á Stórþinginu á móti því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn. Meirihlutinn vill ennfremur frekar EES-samninginn en tvíhliða fríverslunarsamning. Hins vegar hefur sá meirihluti farið minnkandi.

Samkvæmt skoðanakönnunum í Noregi vilja fleiri Norðmenn þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort landið skuli vera áfram aðili að EES-samningnum en þeir sem leggjast gegn því. Þá vilja einnig fleiri Norðmenn skipta samningnum út fyrir fríverslunarsamning en þeir sem eru því andvígir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert