Hefur ekki hætt að grafa

Það er fátt við útlit Ismael Villegas sem bendir til þess að hann sé í fríi. Hann hefur ekki farið í bað í viku og leggur sig í nokkrar stundir á hverjum degi á gólfinu á strippklúbb. Restina af tíma sínum notar hann til að grafa í rústum bygginga sem hrundu í jarðskjálftanum í Mexíkó í síðustu viku.

Villegas er sjálfboðaliði, svo nefndur „topo“ eins og þeir kallast sem bjóða sig fram til að grafa göng í húsarústunum í von um að enn finnist fólk á lífi. Það er hefð fyrir slíkum störfum í Mexíkó, sem á rætur sínar að rekja til jarðskjálftans 1985 sem kostaði rúmlega 10.000 manns lífið.

Jarðskjálfti í síðustu viku varð upp á dag 32 árum eftir að stóri skjálftinn reið yfir. Sá skjálfti  var svo öflugur að björgunarsveitir og önnur neyðarþjónusta réðu ekki við umfangið. Sjálfboðaliðar voru því fengnir til að aðstoða.

Samsett mynd af sjálfboðaliðum sem hafa grafið í rústum húsanna …
Samsett mynd af sjálfboðaliðum sem hafa grafið í rústum húsanna sem hrundu í Mexíkóborg í skjálftanum. AFP

Þróuðu nýja leið til að ná fólki úr rústunum

Villegas var 14 ára þegar þetta var, en hann man eftir að hafa fylgst hugfanginn með ungum mönnum og konum sem grófu sig niður í rústirnar til að ná upp þeim sem grafist höfðu undir.

Þessir upprunalegu topos þróuðu með sér hentuga leið til að draga fólk úr rústunum, sem m.a. fólst í því að grafa lárétt í gegnum rústirnar, eina hæð í einu í leit að loftrýmum þar sem einhverjir kynnu að leynast á lífi.

Aðferðin er fljótvirkari og ódýrari, en jafnframt mun hættulegri, en hefðbundnar björgunaraðgerðir  þar sem grafið er niður lóðrétt í gegnum einn hluta byggingar í einu og reglulega gert hlé til að tryggja að byggingin sé traust.

„Okkar tækni byggist á því að grafa göng. Þess vegna kalla þeir okkur moldvörpur, af því að við gröfum göng og stundum með engu nema höndunum,“ segir Villegas við AFP. Útbúnaður hans samanstendur af hjálmi með gleraugum og höfuðljósi.

Keyrði 700 km til að hjálpa til

Þegar skjálftinn reið yfir Mexíkóborg á fimmtudaginn í síðustu viku var Villegas staddur í 700 km fjarlægð í Oaxaca-fylki í suðurhluta Mexíkó að aðstoða við að hreinsa til eftir skemmdirnar sem urðu í jarðskjálftanum 7. september.

Björgunarsveitir leita í rústum Alvaro Obregon byggingarinnar. 132 voru þar …
Björgunarsveitir leita í rústum Alvaro Obregon byggingarinnar. 132 voru þar inni er skjálftinn reið yfir og var 29 bjargar á lífi fyrstu dagana á eftir. AFP

Um leið og jörðin hætti að skjálfa rauk hann inn í bíl sinn og flýtti sér til baka til Mexíkóborgar, en fréttir voru þegar teknar að berast af húsum sem hrunið höfðu í skjálftanum.

„Ég keyrði jafn hratt og ég gat. Þetta var tíu tíma akstur. Ég kom hingað klukkan tvö að morgni og dreif mig strax út í rústirnar. Ég og teymi mitt náðum að bjarga sjö manns,“ segir Villegas.

Hann hefur ekki hætt síðan og heldur áfram að grafa í rústum sjö hæða skrifstofubyggingar í Roma-hverfinu, þar sem hvað mestar skemmdir urðu. En talið er að um 330 manns hafi farist í skjálftanum.

„Við höldum til í strippklúbb. Það eru súlur þar og bar og allt dótið sem stelpurnar nota. Þær buðu okkur inn og leyfa okkur að nota klósettið og sofa á gólfinu.“

Fara um heim allan að vinna eftir skjálfta

Villegas telur um 200 topos starfa í Mexíkó. Allir eru þeir sjálfboðaliðar og í hvert sinn sem öflugur jarðskjálfti ríður yfir – hvar sem er í heiminum – þá taka þeir sér frí frá vinnu og koma sér á skjálftasvæðið.

Dags daglega starfar Villegas sem rafvirki hjá neðanjarðarlestum Mexíkóborgar. Hann segir starf sitt sem topo þó taka mikinn tíma.

Ismael Villegas hefur ekki unnið sér hvíldar frá því jarðskjálftinn …
Ismael Villegas hefur ekki unnið sér hvíldar frá því jarðskjálftinn reið yfir Mexíkóborg í síðustu viku. AFP

„Ég er ekki giftur og á engin börn. Ég held að það hljóti að vera af því að ég er alltaf að þjóta á hamfarasvæði. Ég held að ég sé ekki það ljótur!“

„Maður fyllist örvæntingu þar inni“

Það er líka hættulegt að vera topo. Ein lítil mistök geta orðið til þess að rústirnar hrynji yfir viðkomandi. „Þetta er eins og lagkaka á mismunandi hæðum. Ef einhver togar skyndilega í grunninn, þá geta sex hæðir kökunnar hrunið saman í eitt,“ segir lögfræðingurinn og sjálfboðaliðinn Luis Garcia.

„Þetta er hafsjór steinsteypu, styrktarbita, járns, mulnings og vökva. Maður fyllist örvæntingu þar inni.“

Pola Diaz Moffitt hefur starfað sem topo frá því 1985. Hún segir hræðsluna alltaf gera vart við sig þegar hún fer fyrst inn í rústirnar. „Fyrst skjálfa fæturnir á manni og svo nær maður stjórn á sér. Þetta er staður þar sem allt hreyfist,“ segir Moffitt sem hefur bjargað 25 manns frá því hún gerðist topo.

Þegar Alvaro Obregon-byggingin sem Villegas grefur nú í hrundi voru 132 þar inni. 29 manns var bjargað á lífi á fyrstu dögunum, en undanfarið hefur einungis fundist látið fólk þar líkt og í öðrum þeim bygginga sem hrundu.

Sjálfboðaliðarnir eru þó ekki tilbúnir að gefast upp. „Við höfum bjargað fólki úr rústum eftir viku og jafnvel lengri tíma,“ segir Villegas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert