Trump: „Vilja láta gera allt fyrir sig“

Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi yfirvöld á Púertó Ríkó og sagði …
Donald Trump Bandaríkjaforseti gagnrýndi yfirvöld á Púertó Ríkó og sagði þau vilja láta gera allt fyrir sig. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti beinir nýjustu Twitter-skilaboðum sínum að stjórnvöldum á Púertó Ríkó vegna gagnrýni þeirra á hjálparstarf bandarískra stofnana í kjölfar eyðileggingarinnar sem fellibylurinn María olli á eyjunni.

María varð 16 manns að bana og skildi eyjuna eftir rafmagnslausa er hún fór þar yfir sem fjórða stigs fellibylur fyrir rúmri viku.

Sagði Trump á Twitter ráðamenn á Púertó Ríkó „vilja láta gera allt fyrir sig“ og að þeir sýndu lélega leiðtogahæfni. Stutt er síðan Carmen Yulin Cruz, borgarstjóri San Juan höfuðborgar Púertó Ríkó, biðlaði til stjórnvalda í Bandaríkjunum eftir hjálp. „Þolinmæði okkar er á þrotum,“ sagði hún á fundi með fréttamönnum.

„Ég bið forseta Bandaríkjanna að tryggja að einhver sem er starfinu vaxinn hafi umsjón með því að bjarga mannslífum. Ég er hætt að vera kurteis. Ég er hætt að vera diplómatísk. Ég er öskuill,“ sagði Cruz í viðtali við CNN þar sem hún skartaði stuttermabol með áletruninni „Hjálpið okkur, við erum að deyja“.

BBC segir Cruz nú dvelja í skýli, ásamt öðrum íbúum eyjanna, en heimili hennar var eitt þeirra sem eyðilögðust í fellibylnum. Hún sagði útlit fyrir að ekki yrði rafmagn komið á að fullu fyrr en eftir 6-8 mánuði, en um 90% heimila á eyjunni urðu fyrir skemmdum í fellibylnum.

Tæpur helmingur þeirra 3,4 milljóna sem búa á Púertó Ríkó eru án neysluvatns samkvæmt upplýsingum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Unnið er að því að hreinsa vegi á eyjunni og gera þá ökuhæfa og koma sjúkrahúsum í starfhæft ástand.

Í röð Twitter-skilaboða sem Trump sendi frá sér í morgun gaf hann í skyn að demókratar hefðu sagt Cruz „að vera vond við Trump“. Þá kvaðst hann ætla að heimsækja eyjuna ásamt Melaniu Trump, eiginkonu sinni.

„Ég var að biðja um hjálp. Ég var ekki að segja neitt slæmt um forsetann,“ sagði Cruz þegar viðbragða var leitað hjá henni.

„Ég mun halda áfram að gera það sem ég þarf, segja það sem ég þarf og hrósa þeim sem ég þarf að hrósa og hringja í þá sem ég þarf að hringja í,“ sagði Cruz.

„Þetta snýst ekki um mig. Þetta snýst ekki um neinn einn. Þetta snýr að því að mannslíf eru í húfi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert