Segir Tyrkland ekki þurfa á ESB að halda

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Tyrkland ekki þurfa á ESB …
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Tyrkland ekki þurfa á ESB að halda, en ESB þurfi hins vegar á Tyrklandi að halda. AFP

Tyrkland hefur ekki lengur neina þörf fyrir að ganga í Evrópusambandið, en Tyrkir munu þó ekki einhliða ákveða að slíta aðildarviðræðum. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti við tyrkneska þingið í dag.

„Við verðum ekki þeir sem munu hætta. En satt best að segja þá þurfum við ekki lengur á Evrópusambandsaðild að halda,“ hefur Reuters eftir Erdogan.

Aðildarviðræður Tyrklands hafa staðið yfir í 12 ár, en hafa gott sem stöðvast alfarið eftir gagnrýni ráðamanna ESB vegna harðra aðgerða tyrkneskra stjórnvalda í kjölfar misheppnaðs valdaráns sumarið 2016.

Tugir þúsunda hafa verið hnepptir í varðhald, m.a. kennarar og fjölmiðlafólk. Stjórn Erdogans hefur sagt ríki ESB ekki hafa haft fullan skilning á þeirri miklu ógn sem Tyrkland stóð frammi fyrir og að þau hafi ekki brugðist við beiðni tyrkneskra stjórnvalda að fá framselda einstaklinga sem þau telja hafa staðið að valdaránstilrauninni.

„ESB brást okkur í baráttunni gegn hryðjuverkaógninni,“ sagði Erdogan og gaf í skyn að ESB þyrfti þó enn á Tyrklandi að halda.

„Ef ESB ætlar að taka skref fram á við þá er aðeins ein leið til þess og það er að samþykkja aðild Tyrklands og hefja tímabil menningar og hagvaxtar.“

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði í kosningaumræðu í Þýskalandi í síðasta mánuði að það væri ljóst að Tyrkland ætti ekki að ganga í ESB og að binda ætti endi á aðildarviðræðurnar, jafnvel þó að Tyrkland væri mikilvægur bandamaður ESB í NATO.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert