Árásarmaðurinn talinn hafa svipt sig lífi

Átta rifflar fundust í herbergi árásarmannsins.
Átta rifflar fundust í herbergi árásarmannsins. AFP

Lögreglan í Las Vegas telur nú að byssumaðurinn sem hóf skotárás á Mandalay Bay hótelinu og myrti að minnsta kosti 50 manns og slasaði allt að 400, hafi sjálfur svipt sig lífi. AFP-fréttastofan greinir frá.

Í fyrstu var talið að sérsveitarmenn lögreglu hefðu fellt hann á vettvangi, en nú berast þær fréttir að árásarmaðurinn, Stephen Paddock, hafi skotið sig eftir árásina, áður en lögreglumenn brutust inn í herbergið hans.

Paddock hóf skotárás frá 32. hæð Mandalay Bay hótelsins um klukkan 22:30 að staðartíma, eða klukkan 5:30 að íslenskum tíma. Hann skaut tónleikavettvang við hlið hótelsins, þar sem kántrítónlistarhátíð fór fram.

Greint hefur verið frá því að 406 einstaklingar hafi verið fluttir slasaðir á sjúkrahús í kjölfar árásarinnar, en ekki er vitað hvort einhverjir úr þeim hópi séu á meðal hinna látnu.

Paddock er 64 ára gamall, en ekkert hefur komið fram sem tengir hann við hryðjuverkasamtök. Talið er að hann hafi verið einn að verki en sambýliskona hans, Marilou Danley var með honum á hótelinu. Hún er nú í haldi lögreglu. Átta rifflar fundust á hótelherbergi Paddock, þar sem hann framdi ódæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert