Sagði árásina „hreina illsku“

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AFP

„Þessi verknaður var hrein illska,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í ávarpi sem hann flutti úr Hvíta Húsinu í dag í kjölfar árásarinnar á Mandalay-hótelinu í Las Vegas þar sem byssumaður myrti að minnsta kosti 50 manns og særði allt að 400. 

Trump þakkaði í ávarpi sínu lögreglunni í Las Vegas og öðrum sem unnu á vettvangi að því að tryggja öryggi fólks og hjálpa þeim sem urðu fyrir árásinni. Viðbragðshraði þeirra hafi verið stórkostlegur og komið í veg fyrir frekara mannfall. Viðbrögin hafi verið til marks um sanna fagmennsku. Hundruð Bandaríkjanna syrgðu nú látna ástvini sína.

„Við getum ekki fundið sársauka þeirra eða gert okkur í hugarlund missi þeirra. Við biðjum fyrir fjölskyldum fórnarlambanna og erum til staðar fyrir þau og biðjum Guð um að hjálpa þeim að komast í gegnum þessa myrku tíma. Ritningin kennir okkur að Guð sé nálægur þeim sem er niðurbrotinn og bjargi þeim sem séu andlega bugaðir. Við leitum huggunar í þessum orðum vegna þess að við vitum að Guð lifir í hjörtum þeirra sem syrgja.“

Flaggað í hálfa stöng vegna fórnarlambanna

Trump beindi einnig orðum sínum að þeim sem særðust í árásinni og sagði að beðið yrði fyrir því að þeir næðu skjótum bata. Þeim yrði veittur allur sá stuðningur sem þeir þyrftu á að halda. Sagðist hann hafa fyrirskipað að flaggað yrði í hálfa stöng í minningu þeirra sem hefðu látið lífið í árásinni. Hann myndi heimsækja Las Vegas á miðvikudaginn.

Forsetinn sagði að þegar hörmungar gengju yfir væru Bandaríkjamenn sem einn maður. Þannig hefði það alltaf verið. „Samstaða okkar verður ekki rofin með illsku, bönd okkar verða ekki slitin í sundur með ofbeldi og þó að við finnum til mikillar reiði vegna þessara óskiljanlegu morða á samborgurum okkar er það ástin sem skilgreinir okkur í dag.“

Við slíkar aðstæður væri tilhneiging til þess að leita að einhverjum tilgangi í óreiðunni, einhvers konar ljósi í myrkrinu. Svörin við því væru ekki augljós. Hins vegar mætti hugga sig við það að jafnvel myrkasta rými mætti lýsa upp með einu ljósi og jafnvel hræðilegustu aðstæður væri hægt að lýsa upp með vonarglætu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert